Viðskipti innlent

Aukinn hagnaður á milli ára

Hagnaður MP Fjárfestingarbanka hf. nam 615 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 270 milljónum krónum meira en á sama tíma fyrir ári en þá nam hagnaðurinn 345 milljónum króna.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að vaxtatekjur hafi numið 985 milljónum króna en það er 146 prósenta hækkun frá sama tímabili í fyrra. Hreinar vaxtatekjur voru hins vegar neikvæðar um 250 milljónir króna þar sem hluti erlends efnahagsreiknings var fjármagnaður í íslenskum krónum.

Hreinar rekstrartekjur bankans námu 1.077 milljónum króna og hækkuðu um 89 prósent frá sama tímabili í fyrra.

Gengishagnaður af annarri fjármálastarfsemi nam 725 millj. kr., samanborið við 191 millj. kr. fyrir sama tímabil árið áður.

Útlán til viðskiptamanna í lok júní 2006 voru 4.892 milljónir króna samanborið við 2.900 millj. kr. í ársbyrjun.

Heildareignir bankans í lok júní 2006 voru 24.830 milljónir króna sem er 271 milljón krónu minna en í fyrra.

Í tilkynningunni segir að rekstur bankans á fyrri hluti ársins hafi verið mjög góður þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum innanlands. Í ljósi aðstæðna á mörkuðum hafi verið ákveðið að draga saman efnahagsreikning bankans hér á landi en að auka áfram umsvif bankans erlendis.

Þá segir ennfremur að umsvif bankans hafi aukist verulega erlendis á fyrri hluta árs. Bankinn sé m.a. eini íslenski aðilinn að kauphöllunum í Eystrasaltslöndunum. Góður árangur bankans í Austur Evrópu er hvatning til frekari vaxtar og verður opnað útibú í Eystrasaltslöndunum á haustmánuðum.

Sé það mat stjórnar MP Fjárfestingarbanka hf. að framtíðarhorfur bankans séu góðar, ekki síst í ljósi sívaxandi tekna bankans af erlendri starfsemi, aukinna þjónustutekna og vaxandi markaðshlutdeildar á innlendum markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×