Viðskipti innlent

Metkaup á erlendum bréfum

KB banki.
KB banki.

Innlendir aðilar keyptu erlend verðbréf fyrir 54 milljarða í síðasta mánuði, samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Greiningardeild KB banka segir um metkaup að ræða í einum mánuði síðast mælingar hófust árið 1994.

Í hálffimm fréttum bankans í dag kemur fram að í júnímánuði hafi innlendir aðilar keypt erlend hlutabréf fyrir 9,5 milljarða krónur á sama tíma í fyrra.

Það sem af er ári hafi verið mjög miklar sveiflur í viðskiptum með erlend verðbréf, að mati deildarinnar. Mest voru viðskipti með hlutafé erlendra fyrirtækja þar sem hrein kaup voru um 50,5 milljarðar króna samanborið við nettósölu á erlendu hlutabréfum í júní upp á tæpa 6 milljarða krónur.

Þá segir deildin að mjög rólegt hafi verið á íslenska hlutabréfamarkaðanum í júlí og virðist sem innlendir aðilar hafi leitað á erlend mið. Sé litið á efnahagsreikning innlánstofnana megi sjá að erlend hlutabréfaeign óx um 31 milljarð króna frá júní sem skýri líklega að stórum hluta ofangreind viðskipti. Auk þessa megi telja líklegt að lífeyrissjóðir hafi verið að bæta við sig erlendu hlutafé sem og stærri íslensk fyrirtæki, að mati greiningardeildar KB banka.

Þá segir deildin að þrátt fyrir þessi miklu kaup á erlendum hlutabréfum hafi krónan styrkst um tæp 5 prósent í síðasta mánuði og því ólíklegt að viðskiptin hafi skapað mikið flæði á innlendum gjaldeyrismarkaði. Megi rekja styrkinguna að mestu leyti til endurnýjaðs áhuga erlendra fjárfesta á íslensku krónunni en gefin voru út krónubréf fyrir 17 milljarða krónur eftir mikla lægð mánuðina þar á undan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×