Viðskipti innlent

Tap hjá Bolar

Eignarhaldsfélagið Bolar ehf. tapaði 8,5 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er nokkur viðsnúningur á afkomu félagsins en á sama tíma í fyrra skilaði það 488,4 milljóna króna hagnaði. Í uppgjöri Bola segir að hafa beri í huga að í fyrra seldi félagið verulegan hluta af starfsemi sinni til Promens hf. og var hagnaður af rekstri félagsins í fyrra tilkominn vegna framangreindrar sölu.

Þá kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands að vergur hagnaður (EBITDA) hafi numið tæpum 79 milljónum króna en hann var 70,8 milljónir króna fyrir ári.

Tekjur Bola námu tæpum 887,2 milljónum króna miðað við 799,6 milljónir króna á sama tíma fyrir ári og rekstrargjöld á fyrstu sex mánuðum ársins námu 857,3 milljónum króna miðað við 728,8 milljónir króna á síðasta ári.

Samstæða Eignarhaldsfélagsins Bolar ehf. samanstendur af  rekstrarfélögunum Sæplast Norge AS, Sæplast Ålesund AS. og Sæplast Canada Inc. auk móðurfélagsins. Ákveðið var að sala á Sæplasti Canada Inc. til Promens hf. sem tilkynnt var fyrr á árinu gengi til baka en félagið er rekið í samvinnu við rekstur Promes félaganna í Norður Ameríku, að því er fram kemur í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×