Viðskipti innlent

Tap Tæknivals minnkar

Tæknival tapaði 27 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma fyrir ári tapaði félagið rétt rúmri 41 milljón króna. Tapið skýrist að miklu leyti vegna óhagstæðrar gengisþróunar.

Í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands segir að rekstrartekjur félagsins hafi numið 488 milljónum króna á tímabilinu en rekstrargjöld án afskrifta 460 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBIDTA) var 28,5 milljónir króna en afskriftir námu 5,1 milljón króna. Hrein fjármagnsgjöld Tæknivals námu um 57 milljónum króna, sem að miklu leyti er vegna gengisþróunar.

Fram kemur að eigið fé Tæknivals hafi verið neikvætt um 107 milljónir króna í lok júní og voru heildarskuldir félagsins 620 milljónir króna í lok tímabilsins. Þar af eru langtímaskuldir félagsins 363 milljónir króna en þær voru áður 352 milljónir króna. Þá lækka skammtímaskuldir úr 342 milljónum króna í 257 milljónir króna á árinu. Veltufjármunir félagsins í árslok námu 205 milljónum króna en voru 295 milljónir króna í upphafi árs.

Þá segir að verðmæti viðskiptavildar er færð 0 kr. í reikningum félagsins en endurspeglar ekki þau verðmæti sem felst í viðskiptavild félagsins að mati stjórnar Tæknivals hf.

Í byrjun mars á þessu ári keypti Eignarhaldsfélagið Byr ehf. allt hlutafé í félaginu. Í kjölfarið seldi félagið rekstur verslunarsviðs Tæknivals í Skeifunni 17 og tóku nýir eigendur við rekstri þess hluta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×