Viðskipti innlent

Tap hjá Flögu

Flaga Group tapaði 1,2 milljónum bandaríkjadala eða tæpum 83 milljónum íslenskra króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra tapaði félagið rétt rúmri einni milljón dala eða 69 milljónum króna á núvirði. Tap félagsins á öðrum fjórðungi ársins nemur 368.000 dölum eða rúmum 25,4 milljónum íslenskra króna.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að tekjur Flögu námu 7,9 milljónum dala eða rúmum 546 milljónum íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi sem er 9 prósenta samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra. Tekjur á fyrri helmingi ársins námu 15,3 milljónum dala eða rúmum einum milljarði króna, sem sömuleiðis er 9 prósenta samdráttur á milli ára.

Þá kemur fram að markmiðum félagsins um lækkun kostnaðar hafi verið náð og nemur lækkunin 14 prósentum.

EBITDA framlegð Flögu nam 196.000 dölum eða 13,5 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi en inni í því sé falinn kostnaður vegna skipulagsbreytinga er nemur 140.000 dölum eða 9,7 milljónum íslenskra króna. Á fyrri helmingi ársins var framlegðin neikvæð um 142.000 dali eða 9,8 milljónir króna. Innifalinn er kostnaður vegna skipulagsbreytinga er nemur 376.000 eða 26 milljónum króna sem færður er með reglulegum gjöldum í samræmi við reikningsskilastaðla.

Í tilkynningunni segir ennfremur að flutningur Flögu til Kanada og Evrópu sé að mestu lokið með góðum árangri þar sem tekist hafi að ná fram verulegri lækkun kostnaðar eins og stefnt var að.

Þá segir að nýjar vörur frá Flögu séu nú á lokastigi til kynningar á markaði og fyrirsjáanlegt að reglulegar uppfærslur hugbúnaðar verði tíðari en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×