Viðskipti innlent

Stefnt að skráningu Icelandair fyrir áramót

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.
Hannes Smárason, forstjóri FL Group, og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.

FL Group og Glitnir hafa gert með sér samkomulag sem felur í sér að Glitnir sölutryggir 51 prósents hlut í Icelandair Group. Þetta þýðir að Icelandair Group hverfur úr samstæðu FL Group þegar áreiðanleikakönnun lýkur. Stefnt er að því að henni ljúki um miðjan október og verður Icelandair Group skráð á hlutabréfamarkað fyrir áramót.

Í tilkynningu frá FL Group segir að félagið hafi áður lýst yfir vilja til að skrá Icelandair Group á markað en einnig lýst sig reiðubúið til að fylgja félaginu úr hlaði sem kjölfestufjárfestir. Við skráningu Icelandair Group mun hlutur FL Group minnka verulega og einnig er mögulegt að félagið geri það áður en til skráningar kemur.

Í tengslum við skráningu Icelandair Group á hlutafjármarkað mun fara fram almennt hlutafjárútboð, þar sem fagfjárfestum annarsvegar og almenningi hinsvegar gefst kostur á að skrá sig fyrir hlut í Icelandair Group. Nánar verður gert grein fyrir sölufyrirkomulagi þegar áreiðanleikakönnun er lokið.

Þá segir í tilkynningunni að starfsemi Icelandair Group mun verða með óbreyttu sniði. Stjórnendur félagsins muni leiða það áfram og stjórnin óbreytt.

Þá er haft eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, að niðurstaðan sé afar ánægjuleg fyrir alla aðila. „Með þessum samningi er FL Group að innleysa verulegan söluhagnað af Icelandair Group. Þessi viðskipti og þær áætlanir sem uppi eru, skipta einnig töluverðu máli fyrir FL Group og auka sveigjanleika til frekari fjárfestinga. Við höfum lagt áherslu á að Icelandair Group komist í almenningseigu, enda mikilvægasta samgöngufyrirtæki landsins og verði áfram leiðandi fyrirtæki í alþjóða flugrekstri," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×