Íslenski boltinn

Lofar markaveislu annað kvöld

Logi Ólafsson lofar markaveislu á Laugardalsvellinum annað kvöld, en þegar eru yfir 7000 miðar seldir á leikinn
Logi Ólafsson lofar markaveislu á Laugardalsvellinum annað kvöld, en þegar eru yfir 7000 miðar seldir á leikinn

Logi Ólafsson segist verða milli steins og sleggju þegar hans menn mæta Íslandsmeisturum FH á Laugardalsvelli á morgun í kjölfar yfirlýsinga kollega hans Ólafs Jóhannessonar, þjálfara FH, á blaðamannafundi sem haldinn var í dag.

Logi segist vera milli steins og sleggju fyrir leikinn vegna yfirlýsingar Ólafs Jóhannessonar á blaðamannafundi í morgun, þar sem Jóhannes lýsti því yfir að hann ætlaði að segja starfi sínu lausu ef FH tapaði leiknum.

"FH er auðvitað mitt móðurfélag og ég ber mikla virðingu fyrir Ólafi, svo það yrði mér sannarlega þungbært að þurfa að láta hann standa við orð sín - enda erum við góðir vinir og nágrannar," sagði Logi í samtali við Vísi í dag.

"Spennustigið í hópnum er mjög hátt en undirbúningurinn hefur verið mjög góður og raunar með nákvæmlega sama hætti og hjá hvaða stórliði sem er. Við gistum á Nordica hótelinu í nótt og snæðum saman morgunverð og förum í gönguferð á morgun.

Einhverjir telja kannski að það sé ekki góður undirbúningur að gera þessa hluti sem við höfum verið að gera utan vallar - eins og að fara í "meikóver" og annað, en menn verða líka að efla andann," sagði Logi.

Þegar hann var spurður hvort væri ekki skrekkur í Nördunum fyrir leikinn sagði Logi mannskapinn vera orðinn ýmsu vanur eftir leikinn á Litla-Hrauni á dögunum. "Menn voru ansi smeykir framan af leiknum gegn mönnunum á Hrauninu, en þar naut ég aðstoðar Ólafs Þórðarsonar sem er svipað innrættur og menn innan veggja fangelsisins - og tel ég að hann hafi stappað stálinu verulega í leikmennina, enda var allt annað að sjá til þeirra í síðari hálfleik."

Leikur FH og KF Nörd hefst klukkan 19:30 á Laugardalsvellinum annað kvöld, en hefur Logi sett sér og liði sínu skýrt markmið fyrir leikinn? "Já, ég ætla að lofa mörgum mörkum. Markmiðið er að skora fleiri mörk en andstæðingurinn og ekki má gleyma því að við verðum þarna með eitt eða tvö leynivopn.

Örvænting Ólafs er orðin það mikil að ég held að hann ætli sjálfur að spila með FH part úr leiknum og það sýnir bara að þeir taka okkur mjög alvarlega, en eins og ég sagði ætlum við að skora fullt af mörkum og vonumst svo til þess að æðri máttarvöld verði með okkur í varnarleiknum," sagði Logi og bætti því við að hann ætlaði ekki að hætta að þjálfa KF Nörd þó leikurinn tapaðist, enda hefði verið lagt upp með fórnarkostnað þegar liðið var lagt á laggirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×