Viðskipti innlent

Teymi semur um endurfjármögnun

Teymi hf. hefur gengið frá samkomulagi um sölu á fasteignum fyrirtækisins fyrir tæpa 2 milljarða krónur. Andvirðinu verður varið til niðurgreiðslu skulda. Félagið hefur ennfremur samið við Landsbankann um endurfjármögnun og stefnir að hlutafjárútboði á fyrsta fjórðungi næsta árs þar sem hlutafé verður aukið um 6 milljarða krónur.

Í tilkynningu frá Teymi segir að stjórn félagsins hafi staðfest 29. nóvember síðastliðinn samkomulag við Landsbanka Íslands hf. um endurfjármögnun félagsins. Verður 8,4 milljarða króna skammtímaskuldir félagsins breytt í langtímaskuldir og minnkar við það vaxta- og afborgunarbyrði félagsins verulega.

Þá er ennfremur stefnt að hlutafjárútboði í Teymi á fyrsta fjórðungi næsta árs þar sem hlutafé verður aukið um 6 milljarða krónur.

Þá segir að í kjölfar skiptingar Kögunar hf. í Kögun ehf. og Hands Holding hf. eignaðist Teymi hf. 34,5% hlut í Hands Holding hf. Í tengslum við endurskipulagningu á Hands holding hf. hefur Teymi hf. yfirtekið lán fyrir 1.850 milljónir króna sem breytt verður í hlutafé í félaginu. Jafnframt hefur Teymi hf. keypt 9% hlut af 365 hf. og er eignarhlutur Teymis hf. í Hands holding hf. í kjölfar þessara aðgerða 49%.

Tilkynning Teymis






Fleiri fréttir

Sjá meira


×