Innlent

Ragnheiður nýr bæjarstjóri í Árborg

Ragnheiður Hergeirsdóttir verður bæjarstjóri nýs meirihluta Samfylkingarinnar, Vinstri-grænna og Framsóknarflokks í Árborg. Gengið hefur verið frá samningi um samstarf flokkanna. Viðræður hafa staðið yfir frá því á föstudagskvöld eftir að það slitnaði upp úr samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Jón Hjartarson, oddviti Vinstri - grænna, og Þorvaldur Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins, verða forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.

Málefnasamningur verður kynntur á bæjarstjórnarfundi á næsta fimmtudag.

Ragnheiður segist mjög ánægð með niðurstöðuna og segir viðræður hafa gengið vel. Fulltrúar Samfylkingarinnar séu mjög ánægðir að komast aftur í meirihluta og geta tekið þátt í uppbyggingu Árborgar af fullum krafti.

Ragnheiður lenti í fjórða sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi vegna komandi þingkosninga nýverið en hún hefur ákveðið að þiggja ekki sætið í ljós þess að hún sest nú í bæjarstjórastólinn í Árborg. Það verður í höndum uppstillingarnefndar að ákveða hver tekur hennar sæti en búast má við að það verði kona þar sem þrír karlar skipa efstu sæti listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×