Vísindamenn hafa fundið tvö gömul rekbelti og eldfjall á hafsbotni á Reykjaneshrygg sem er hið eina sinnar tegundar í heiminum. Þessar merku uppgötvanir eru niðurstöður rannsóknarleiðangurs sem fræðimenn frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Hawaii héldu í í sumar á rannsóknarskipinu Knorr.
„Þetta hefur fyrst og fremst mikla fræðilega þýðingu og hjálpar okkur að skilja jarðsögu Íslands,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur og einn leiðangursmannanna. Hann segir að ekki hafi verið vitað um tilvist rekbeltanna og eldstöðvarinnar áður þar sem svæðið hafi aldrei verið skoðað með þessari nákvæmni.
Eldfjallið sem leiðangursmennirnir fundu hefur hlotið nafnið Njörður. Eldstöðin er engin smásmíð því fjallið rís um 1.100 metra upp af hafsbotni.
„Við þekkjum sambærileg eldfjöll á landi en svona stórt eldfjall á rekás úti í sjó þekkist ekki. Það vissi enginn að þetta væri til,“ segir Ármann sem segir að fjallið geti gosið hvenær sem er.
„Það mun gjósa þarna. Þessi askja hefur myndast í stóru gosi en það er óvíst hvort svo stórt gos verði þarna aftur,“ segir Ármann sem býst við að fleira eigi eftir að koma í ljós þegar svæðið verður kannað frekar.