Útvarpsstöðin Reykjavík FM ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í hátíðarhöldunum á menningarnótt og hefur ákveðið að blása til stórtónleika í bakgarði skemmtistaðarins Dillon á laugardag. „Við erum búnir að standa fyrir nokkrum grillveislum með „live" músík á Dillon í sumar og ætlum að klára þetta með stæl," segir Franz Gunnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavík FM.

Tónleikarnir hefjast kl. 15 og standa yfir fram á kvöld en segja má að þeir séu í raun tvískiptir. Fram til kl. 18 munu ungar og upprennandi hljómsveitir fá að spreyta sig en frá kl. 19 munu stóru nöfnin stíga á sviðið í bakgarðinum og bjóða upp á „ókeypis rokk og ról af bestu gerð" eins og Franz orðar það. Jeff Who?, Lights on the highway og Mínus eru á meðal þeirra sveita sem stíga á stokk.
Í millitíðinni fer síðan fram fyrsta Íslandsmótið í pylsuáti en undankeppnir hafa verið haldnar hjá útvarpsstöðinni út vikuna. Þeir sem sköruðu fram úr þar munu etja kappi á Dillon og reyna að torga sem flestum pylsum á 12 mínútum. „Það er vel við hæfi að þetta mót skuli fara fram á menningarnótt því pylsur skipa stóran menningarlegan sess á meðal þjóðarinnar," segir Franz. Þess má geta að heimsmetið í pylsuáti eru 66 pylsur á 12 mínútum. „Það er náttúrulega bara rugl en menn munu eflaust gera heiðarlega tilraun til að slá það met," segir Franz.