Erlent

Asíukapphlaupið til tunglsins

Japanar ætla að senda fyrstu könnunarflaug sína af stað til tunglsins 13. september næstkomandi. Hér sést hvernig flaugin á að líta út.
Japanar ætla að senda fyrstu könnunarflaug sína af stað til tunglsins 13. september næstkomandi. Hér sést hvernig flaugin á að líta út. AP

Japanar segja sín áform þau viðamestu síðan Bandaríkjamenn fóru til tunglsins með Apollo. Kínverjar ætla að rannsaka yfirborð tunglsins til undirbúnings þess að þeirra menn verði sendir til tunglsins.

Aðalspurningin snýst þó um það hvorir verði á undan, Japanar eða Kínverjar. Bæði ríkin ætla að senda fyrstu könnunarflaugar sínar af stað á næstunni, hugsanlega strax í næsta mánuði. Þar með er kapphlaupið hafið.

„Ég vil ekki gera úr þessu neitt mál um það hver sigrar eða tapar,“ sagði Yasunori Motogawa hjá japönsku geimferðastofnuninni JAXA. „En hverjir svo sem fara fyrr á loft, þá hefur japanska verkefnið yfirburðina hvað alla tækni varðar.“

Geimferðaáætlun Kínverja hefur tekið stórt stökk á síðustu árum. Kínverjar hristu til dæmis heldur betur upp í nágrannaríkjunum árið 2003 þegar þeir urðu fyrsta Asíuríkið til að senda eigin geimfara á braut umhverfis jörðu.

Japanar hafa hins vegar fylgt fast á hæla Kínverja og luku síðastliðinn vetur við að koma sér upp kerfi fjögurra njósnagervihnatta sem geta fylgst með öllu yfirborði jarðar.

Fyrirhugaðar tunglferðir Japana og Kínverja eru þó metnaðarfyllstu geimferðaráætlanir Asíuríkja frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×