Sport

Loeb bjartsýnn þrátt fyrir meiðsli

Sebastien Loeb
Sebastien Loeb AFP

Þrefaldur heimsmeistari í rallakstri, Frakkinn Sebastien Loeb, segist óttast að handleggsbrotið sem hann varð fyrir á síðasta ári gæti gert honum lífið leitt í fyrstu keppni ársins í Monte Carlo um næstu helgi. Loeb ekur fyrir lið Citroen, sem tekur nú þátt í heimsmeistaramótinu á ný eftir árs fjarveru.

Loeb vann heimsmeistaratitilinn nokkuð naumlega á síðasta tímabili, en hann hafði gríðarlega yfirburði á mótinu þangað til hann handleggsbrotnaði í reiðhjólaslysi og missti af síðustu fimm keppnum ársins. Finninn Marcus Grönholm átti þó aðeins stærðfræðilega möguleika á að ná Loeb, en var í raun nálægt því þegar upp var staðið.

Lið Citroen mætir nú til leiks með nýjan bíl eftir að hafa dregið sig úr keppni fyrir síðasta tímabil, þegar Loeb keppti hjá einkaaðila. Heimsmeistarinn er hóflega bjartsýnn fyrir næsta tímabil, því hann segist ekki vera búinn að ná sér að fullu í handleggnum.

"Ég er enn ekki kominn með fullan styrk í höndina og á enn erfitt með ákveðnar hreyfingar. Ég á það líka til að vera svolítið stífur, en ég náði að keyra mikið á undirbúningstímabilinu og náði að aka nokkuð vel. Nú verð ég bara að demba mér í keppni og sjá hvað setur," sagði Loeb og bætti við að nýji bíllinn frá Citroen lofaði mjög góðu - en sá hefur fengið nafnið C4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×