Sport

Öruggt hjá Grönholm í Svíþjóð

Finninn Marcus Grönholm bar sigur úr býtum í Svíþjóðarrallinu í dag með nokkrum yfirburðum og hleypti franska heimsmeistaranum Sebastian Loeb aldrei nálægt sér. Grönholm jók við forskotið sem hann hafði fyrir síðasta keppnisdaginn í dag og endaði á því að sigra með 53,8 sekúndum.

Þetta var fyrsti sigur Grönholm á tímabilinu en sá fimmti á síðustu átta árum sem hann vinnur í Svíþjóðarrallinu. "Þetta var mjög góð helgi. Ég var í góðu standi, bíllinn var í góðu standi og því fór sem fór," sagði Grönholm , sem ekur á Ford Focus.

Loeb, sem er núverandi heimsmeistari, var alls ekki ósáttur við annað sætið úr því sem komið var en hann heldur forystu sinni í heildarstigakeppni ökumanna, þótt naum sé. Nú munar aðeins tveimur stigum á Loeb og Grönholm þegar þrjár keppnir eru búnar.

"Úrslitin hér í Svíþjóð eru góð fyrir keppnina. Því meiri spenna, því fleiri munu fylgjast með gangi mála," sagði Loeb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×