Körfubolti

Enn vinnur Dallas

Getty Images

Dallas sigraði Cleveland 98-90 í Cleveland í gærkvöldi í NBA körfuboltanum. Dirk Nowitzki var stigahæstur hjá Dallas með 23 stig en hann hitti illa í leiknum. Jason Terry skoraði 21 stig í 56. sigurleik Dallas. LeBron James var langstigahæstur hjá Cleveland með 31 stig.

Chris Bosh hefur verið sjóðheitur að undanförnu og í gærkvöldi var hann í aðalhlutverki hjá Toronto sem sigraði Orlando 92-85. Bosh skoraði 34 stig og tók 16 fráköst. Aðeins 2 leikmenn hafa náð þessum tölum í einum leik í deildinni í vetur, Yao Ming tvisvar og Amare Stoudemire. Toronto hefur forystu í Atlantshafsriðinum og er með fjórða besta árangurinn í austurdeildinni.

San Antonio Spurs sigraði Indiana 90-72. Tim Duncan skoraði 19 stig í fyrri hálfleik og alls 27 í leiknum, sem tryggði San Antonio sæti í úrslitakeppninni. Gilbert Arenas skoraði 42 stig þegar Washington vann Seattle 108-106. Areanas skoraði sigurkörfuna um leið og flautan gall.

Miami stöðvaði 5 leikja sigurhrinu Atlanta. Jason Williams var stigahæstur hjá Miami með 21 stig. Úrslitin 91-83.

Boston var á góðri leið með að sigra Charlotte þegar þjálfari Boston ákvað að skipta byrjunarliði sínu útaf. Charlotte notaði tækifærið og skoraði 18 stig í röð og vann leikinn 92-84. Jason Hart var hetja Milwaukee þegar hann skoraði sigurkörfuna þremur sekúndum fyrir leikslok gegn LA Clippers, úrslitin 104-103. Nýliðinn Randy Foye skoraði 24 stig þegar Minnesota sigraði Sacramento 95-89.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×