Körfubolti

Kobe skoraði ekki yfir 50 stig

Kobe Bryant áður en hann var kynntur til leiks í nótt.
Kobe Bryant áður en hann var kynntur til leiks í nótt. MYND/Getty

Kobe Bryant mistókst að skora yfir 50 stig fjórða leikinn í röð, en náði engu að síður að setja niður 43 stig þegar LA Lakers bar sigurorð af Golden State, 115-113, í NBA-deildinni í nótt. Alls fóru níu leikir fram í deildinni í nótt.

Lakers hefur nú unnið fimm leiki í röð og eru leikmenn liðsins greinilega komnir með bullandi sjálfstraust eftir gott gengi í síðustu leikjum. Auk þess að skora 43 stig tók Kobe níu fráköst, en þetta var í 81. sinn á ferlinum sem hann skorar yfir 40 stig í leik.

Dallas vann Atlanta 104-97 en þetta var sjötti sigurleikur Dallas í röð, og stefnir liðið nú hraðbyri á að ná besta árangrinum í deildarkeppninni. Josh Howard og Dirk Nowitzki skoruðu 28 stig fyrir Dallas og Jason Terry var með 27 stig.

Chicago lagði Indiana af velli, 92-90. Ben Gordon var með 32 stig fyrir Chicago en hjá Indiana átti Jermaine O´Neal stórleik og skoraði 39 stig og hirti 14 fráköst.

Detroit burstaði Milwaukee með 121 stigi gegn 95. Tayshaun Prince skoraði 28 stig fyrir Detroit. Minnesota marði sigur á Portland á heimavelli sínum, 94-93, þar sem Kevin Garnett skoraði 22 stig og tók 9 fráköst.

Sacramento vann Pheonix nokkuð óvænt, 107-100, en Mike Bibby átti sannkallaðan stórleik og skoraði 37 stig. Carmelo Anthony skoraði 27 stig fyrir Denver sem vann Cleveland, 105-93. LeBron James var með 18 stig og 8 stoðsendingar fyrir Cleveland.

Þá vann San Antonio yfirburðasigur á Seattle þar sem lokatölur urðu 120-79. Manu Ginobili var stigahæstur San Antonio með 19 stig en sjö leikmenn liðsins skoruðu yfir 10 stig í leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×