Körfubolti

Dallas tryggði sér toppsætið í NBA

Dallas verður með heimavallarréttinn í gegn um alla úrslitakeppnina líkt og í fyrra
Dallas verður með heimavallarréttinn í gegn um alla úrslitakeppnina líkt og í fyrra AFP

Dallas Mavericks tryggði sér í nótt heimavallarréttinn alla úrslitakeppnina þegar liðið lagði LA Clippers á heimavelli 96-86. Með sigrinum varð ljóst að ekkert lið getur náð Dallas í deildarkeppninni. Detroit tryggði sér sjötta tímabilið í röð með 50 sigrum og þá læddist Golden State í áttunda sæti Vesturdeildarinnar með auðveldum sigri á Utah.

Dallas vann í nótt 64. leik sinn í deildarkeppninni með sigri á Clippers. Dirk Nowitzki skoraði 26 stig fyrir Dallas en Corey Maggette setti 24 fyrir Clippers.

Detroit lagði New York á útivelli 91-83 þar sem Chauncey Billups skoraði 22 stig fyrir Detroit en þeir Eddy Curry og Nate Robinson skoruðu 24 stig hvor fyrir New York.

Orlando er enn í 8. sæti Austurdeildarinnar eftir auðveldan sigur á Milwaukee 117-94. Hedo Turkoglu skoraði 25 stig fyrir Orlando en Ersan Ilyasova skoraði 18 stig fyrir meiðslum hrjáð lið Milwaukee.

Toronto vann fjórða sigurinn í röð með því að skella Minnesota á útivelli 111-100. Anthony Parker skoraði 24 stig fyrir Toronto en Ricky Davis skoraði 28 stig fyrir Minnesota.

San Antonio lagði Portland 112-96. Tony Parker skoraði 30 stig fyrir San Antonio en Jarrett Jack og Jamaal Magloire skoruðu 19 hvor fyrir Portland. Denver vann sjötta leikinn í röð þegar liðið lagði LA Lakers 115-111 á heimavelli. Carmelo Anthony skoraði 33 stig fyrir Denver og Marcus Camby hirti 22 fráköst. Kobe Bryant skoraði 23 stig og gaf 10 stoðsendingar hjá Lakers.

Houston lagði Seattle 95-90 þar sem Yao Ming skoraði 31 stig fyrir Houston og Rashard Lewis skoraði 20 stig fyrir Seattle og skaust um leið upp fyrir Shawn Kemp sem fjórði stigahæsti leikmaður í sögu Seattle.

Á sama tíma tapaði Utah enn einum leiknum og því er Houston nú komið með oddaleikinn í yfirvofandi einvígi liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Utah steinlá fyrir Golden State 126-102 og hefur liðinu fatast illa flugið fyrir úrslitakeppnina. Stephen Jackson skoraði 28 stig fyrir Golden State - sem er fyrir vikið komið í áttunda sætið í Vesturdeildinni. Nýliðinn Ronnie Brewer skoraði 21 stig fyrir Utah.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×