Körfubolti

Cleveland og Phoenix komin með forystu

Það var barist um hvern einasta bolta í leik Phoenix og Lakers í kvöld, eins og þessi mynd ber með sér.
Það var barist um hvern einasta bolta í leik Phoenix og Lakers í kvöld, eins og þessi mynd ber með sér. MYND/Getty

Tveimur leikjum er þegar lokið í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í kvöld. Cleveland lagði Washington auðveldlega á heimavelli, 97-82, en Phoenix þurfti að hafa mikið fyrir 95-87 sigri á LA Lakers, þar sem gestirnir höfðu forystu allt fram í fjórða og síðasta leikhluta. Cleveland og Phoenix hafa því náð 1-0 forystu í einvígunum.

Larry Hughes átti mjög góðan leik fyrir Cleveland í kvöld og skoraði 27 stig og þá skilaði LeBron James sínu að venju með 23 stigum, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum.Antawn Jamison var yfirburðamaður hjá Washington og skoraði 28 stig.

Frábær innkoma Leandro Barbosa skipti sköpum fyrir Phoenix gegn Lakers, en Brasilíumaðurinn skoraði 18 af 26 stigum sínum í síðari hálfleik. Kobe Bryant var í miklu stuði í fyrri hálfleik og tryggði Lakers 9 stiga forystu í hálfleik, en Phoenix saxaði smám saman á forskotið í þeim síðari og seig fram úr í 4. leikhluta.

Bryant skoraði alls 39 stig en hann hitti illa á lokamínútunum og því var sigur Phoenix í raun aldrei í hættu undir það síðasta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×