Körfubolti

Gríðarlega mikilvægur sigur hjá Phoenix

Amare Stoudemire var góður í sigrinum á San Antonio í nótt
Amare Stoudemire var góður í sigrinum á San Antonio í nótt NordicPhotos/GettyImages

Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA í nótt. Phoenix vann góðan útisigur á San Antonio 104-98 og jafnaði þar með metin í 2-2 í einvígi liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar og Cleveland komst í 3-1 gegn New Jersey með 87-85 sigri á útivelli.

San Antonio virtist vera með leikinn í hendi sér í gær en með gríðarlegri seiglu á lokasprettinum náði Phoenix að tryggja sér sigurinn á bak við góðan leik þeirra Steve Nash og Amare Stoudemire. Heitt var í kolunum á síðustu mínútunum þar sem Robert Horry var vikið úr húsi fyrir fautalega villu á Steve Nash. Atvikið gæti átt eftir að draga dilk á eftir sér, því í kjölfarið yfirgáfu þeir Amare Stoudemire og Boris Diaw varamannabekk Phoenix og gengu í átt að átökunum - en slíkt varðar leikbann samkvæmt ströngum reglum NBA deildarinnar. Phoenix tryggði sér sigurinn í nótt með því að vinna lokaleikhlutann 32-18 og næsti leikur í einvíginu fer fram á heimavelli liðsins.

Amare Stoudemire skoraði 26 stig og hirti 9 fráköst fyrir Phoenix þrátt fyrir að vera í bullandi villuvandræðum allan leikinn, Steve Nash skoraði 24 stig og gaf 15 stoðsendingar. Tony Parker skoraði 23 stig fyrir San Antonio og Tim Duncan skoraði 21 stig og hirti 11 fráköst.

Cleveland er nú komið í afar vænlega 3-1 stöðu gegn New Jersey eftir nauman útisigur í gær. Hittni liðanna var afar slök í gær en Cleveland-menn höfðu betur í lokin og unnu 87-85 sigur. LeBron James skoraði 30 stig, hirti 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir Cleveland og Larry Hughes skoraði 19 stig. Vince Carter skoraði 25 stig, hirti 9 fráköst og gaf 9 stoðseningar fyrir New Jersey en hitti aðeins úr 6 af 23 skotum sínum utan af velli. Mikki Moore skoraði einnig 25 stig og Richard Jefferson skoraði 15 stig en hitti aðeins úr 3 af 12 skotum utan af velli. Jason Kidd hirti 17 fráköst í leiknum en hitti úr 2 af 13 skotum sínum.

Fimmti leikur Utah og Golden State verður sýndur beint á NBA TV rásinni klukkan 2:30 í nótt og annað kvöld verður fimmti leikur Cleveland og New Jersey í beinni á miðnætti. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×