Innlent

Reykjavíkurborg tapar 4,3 milljarða króna

Tap Reykjavíkurborgar á árinu 2006 nemur rúmum 4,3 milljörðum króna þegar horft er til bæði A- og B-hluta rekstrarreiknings. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Er þetta um sex milljörðum króna lakari afkoma en gert var ráð fyrir í í fjárhagsáætlun ársins 2006, en þar var búist við 1,7 milljarða króna afgangi af rekstri borgarinnar.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningunni er tap borgarinnar samkvæmt A-hluta rekstarreiknings, en það er sú starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, 3,4 milljarðar króna en áætlanir fyrir árið gerðu ráð fyrir 1,3 milljarða króna afgangi.

Tekjur eru borgarinnar á síðasta ári reyndust hins vegar 3,3 milljörðum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og er meginástæðan sú að sala á byggingarétti varð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og skatttekjur voru hærri vegna fleiri greiðenda, hærri útsvarsstofns og hærri tekna af nýjum gjaldstofni fasteignaskatta.

Rekstrargjöld A- og B-hluta rekstrareiknings reyndust samtals 5,2 milljörðum króna hærri en áætlað var og voru umtalsvert meiri í A-hlutanum en í B-hlutanum, sem eru fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu borgarinnar. Rekstrargjöld B-hluta reyndust nefnilega milljarði lægri en í áætlunum.

Eignir A-hluta jukust um 200 milljónir milli ára og skuldir lækkuðu um 3,7 milljarða. Skuldbindingar aukast hins vegar 6,1 milljarð, úr 31,8 milljörðum í 37,9 milljarða.

Eignir A- og B-hluta nema nú 266,9 milljörðum króna og hafa vaxið um 52,5 milljarða króna á árinu 2006. Heildarskuldir A og B hluta að frátöldum skuldbindingum eru 106,4 milljarðar króna en voru 78,4 milljarðar króna í árslok 2005 og hafa því aukist um 28 milljarða króna.

Fyrri umræða um ársreikninginn verður í borgarstjórn í dag og sú síðari eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×