Körfubolti

Kobe Bryant vill fara frá LA Lakers

Kobe Bryant vill fara frá Lakers og setur nú allt upp í loft á leikmannamarkaðnum í NBA í sumar
Kobe Bryant vill fara frá Lakers og setur nú allt upp í loft á leikmannamarkaðnum í NBA í sumar NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant gaf það út í viðtali við útvarpsstöð ESPN í New York að hann vildi fara frá Los Angeles Lakers. Bryant hefur ekki farið leynt með vonbrigði sín á lélegu gengi liðsins undanfarin ár og segir stjórnendur þess ekki deila metnaði sínum um að gera Lakers að stórveldi á ný.

"Ég vil að mér verði skipt frá félaginu - já. Eins erfitt og er að viðurkenna það - er enginn annar möguleiki í stöðunni," sagði Bryant í samtali við Stephen A. Smith á ESPN. Hann var spurður hvort forráðamenn Lakers gætu gert eitthvað til að láta hann skipta um skoðun. "Nei - ég vil bara að þeir geri það rétta í stöðunni (og skipti mér í burtu)."

Bryant segist æfur yfir skrifum LA Times á dögunum þar sem haft var eftir heimildamanni innan LA Lakers að það hefði verið Kobe Bryant sem ýtti á eftir því að félagið skipti Shaquille O´Neal til Miami á sínum tíma. Bryant segir þetta alls ekki rétt og segist mjög vonsvikinn yfir þessum fréttaflutningi.

"Það er alls ekki rétt að ég hafi komið nokkuð nálægt því að flæma Shaq í burtu frá Lakers. Eigandinn sagði mér það áður en Shaq fór að hann ætlaði ekki að framlengja við hann vegna aldurs hans og heilsu," sagði Bryant og sjálfur O´Neal staðfesti í símaviðtali að hann trúði Bryant sjálfur.

"Buss (eigandi Lakers) sagði aldrei eitt orð við mig áður en mér var skipt í burtu og ég trúi Kobe 1000% þegar hann segist ekki hafa komið nálægt málinu," sagði O´Neal.

Kobe Bryant hefur verið einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar síðustu ár og er t.a.m. stigakóngur síðustu tveggja ára þar sem hann hefur skorað vel yfir 30 stig að meðaltali í leik. Hann vann þrjá meistaratitla með liði Lakers í byrjun þessa áratugar og gekk í raðir félagisins árið 1996. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×