Lögreglan í Santa Monica handtók nú um hádegisbil leikkonuna Lindsay Lohan vegna ölvunaraksturs. Þá kom í ljós að hún var einnig með eiturlyf á sér. Samkvæmt vefsíðunni TMZ.com var um kókaín að ræða sem fannst þegar leitað var á Lohan á lögreglustöðinni.
Lohan hefur nú verið sleppt gegn 25 þúsund dollara tryggingu. Hún klessukeyrði Mercedes Benz bifreið sína í maí síðastliðnum eftir að hafa verið að aka undir áhrifum áfengis. Í kjölfar þess fór hún í meðferð.
Lögregla veitti bíl Lohan eftirför eftir að hún var látin vita af eltingaleik tveggja bifreiða. Lohan var sú sem elti.