Erlent

Talað við trén í símann

Álfheiður Eymarsdóttir hjá Reykjavíkurborg hvetur alla til að hringja í eitt eða tvö tré í sumar.
Álfheiður Eymarsdóttir hjá Reykjavíkurborg hvetur alla til að hringja í eitt eða tvö tré í sumar. MYND/pjetur

Hringdu í tré er ekki ævintýrabók fyrir börn, heldur átak á vegum Reykjavíkurborgar til styrktar skógrækt.

„Hugmyndin vaknaði þegar Reykjavíkurborg fór meðvitað að stíga grænni skref til að sporna við gróðurhúsaloftegundum á höfuðborgarsvæðinu. Umhverfisvernd er orðin mun stærri þáttur í starfi borgarinnar og Hringdu í tré er eitt slíkt skref," segir Álfheiður Eymarsdóttir, þjónustustjóri Reykjavíkurborgar. Jón Kristinn Snæhólm, aðstoðarmaður borgarstjóra, átti hugmyndina að átakinu sem er samstarf Reykjavíkurborgar og Vodafone. Þegar hringt er í símanúmerið 900 9555 gjaldfærast 500 krónur á símreikning hringjandans. Fjármagnið rennur síðan óskert til Skógræktarfélags Reykjavíkur sem gróðursetur tré fyrir ágóðann.

„Fjarskiptasamningur Vodafone við Reykjavíkurborg sem undirritaður var í vor varð til þess að Vodafone gaf borginni þetta númer," segir Álfheiður. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone hringdu í fyrsta tréð og gróðursettu í vor í Grasagarðinum. „Skógræktarfélag Reykjavíkur ætlar að gróðursetja 500 þúsund tré í landi Reykjavíkur á næstu þremur árum. Átakið er því liður í því verkefni," segir Álfheiður.

Átakið Hringdu í tré varir út sumarið en að sögn Álfheiðar getur vel komið til greina að hringja líka í tré næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×