Erlent

Fellibylir tvöfalt fleiri nú en árið 1900

Tíðni fellibylja við Atlandshafið er tvöfalt hærri nú en við upphaf síðustu aldar. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn sem birtist í breska tímaritinu Philosophical Transactions. Grandskoðaðir voru fellibylir við Atlandshafið allt frá aldarmótum 1900 og hvernig þeim hefur fjölgað frá ári til árs til dagsins í dag.

Rannsókn þessi kemur ekki heim við ýmsar aðrar sem benda til að fjölgun fellibylja hafi hafist um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Vísindamenn hinnar nýju rannsóknar hafna því og einnig þeirri títtnefndu kenningu að rekja megi fjölgun fellibylja til hefðbundinna sveiflna í náttúrunni. Þeir vilja kenna loftlagsbreytingum af mannavöldum um þróunina.

Vegna loftlagsbreytinga hafa breytingar orðið á vindakerfum og sjór hlýnað - sem eru aðalskilyrði fellibylja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×