Átján ferðamenn slösuðust þegar skipstjóri á útsýnisbáti hætti sér of nærri Hornbreen jökli á Svalbarða í dag. Gríðarlegur jaki klofnaði frá jöklinum og féll í sjóinn. Báturinn steypti stömpum í öldurótinu og fólkið þeyttist til og frá eins og tuskudúkkur. Fregnum ber ekki saman um hvort einhver hluti jakans lenti á bátnum.
Flestir farþeganna voru breskir. Fjórir þeirra slösuðust svo alvarlega að þeir voru fluttir flugleiðis til Tromsö, á meginlandinu. Hinir fengu aðhlynningu á sjúkrahúsi á Svalbarða. Um það bil 50 ferðamenn voru um borð í útsýnisbátnum og auk þess 20 manna rússnesk áhöfn.