Ríkisstjórn Zimbabwes hefur yfirtekið 49 prósenta hlut bandaríska matvælarisans Heinz í stærsta matarolíuframleiðanda landsins. Fyrir þennan hlut voru greiddar 6,8 milljónir dollara. Þetta er fyrsta stóra yfirtakan í Zimbabwe eftir að Robert Mugabe lýsti því yfir að heimamenn myndu fá meiri stjórn á erlendum fyrirtækjum sem starfa í landinu.
Mugabe hefur sakað erlend fyrirtæki um að draga úr eða stöðva framleiðslu til þess að eyðileggja efnahag landsins. Þingið í Zimbabwe hefur nú til athugunar að setja lög sem flytji eignarhlut í erlendum fyrirtækjum til heimamanna. Það á bæði við banka og námur sem eru í eigu útlendinga.
Efnahagur Zimbabwes er í rúst og verðbólga þar yfir 7000 prósent á ársgrundvelli. Stóran hluta af því rekja menn til þess að Mugabe forseti flæmdi hvíta bændur af búgörðum sínum og fékk þá í hendur innfæddra, sem kunnu ekkert fyrir sér í slíkum rekstri.