Portúgalska lögreglan hefur borið til baka fréttir um að hún hafi undir höndum sönnunargögn sem muni leiða til ákæru á hendur foreldrum Madeleine McCann. Ríkislögreglustjóri Portúgals sagði í sjónvarpsviðtali í gær að lögreglan hafi aðeins fengið hluta af sýnum sem send voru til rannsóknar í Bretlandi. Niðurstöður þeirra séu enganvegin jafn afgerandi og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum.
Samkvæmt portúgölskum lögum má lögreglan ekki gefa upplýsingar um sakamál sem eru í rannsókn. Þetta hefur valdið því að allskonar tröllasögur hafa komist á kreik. Annaðhvort hafa upplýsingar komið frá ónafngreindum heimildum eða þá að fjölmiðlar hafa einfaldlega sett fram sínar eigin vangaveltur.
Ríkissaksóknari Portúgals fær gögn í málinu afhent í dag. Varla er þó að búast við viðbrögðum frá því embætti fyrr en frekari gögn liggja fyrir, að minnsta kosti um öll þau sýni sem send voru til rannsóknar í Bretlandi.
Engar afgerandi sannanir gegn foreldrum Madeleine
Óli Tynes skrifar
