Viðskipti innlent

LÍ sagður bjóða 87 milljarða í írskan sparisjóð

Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar Landsbankans.
Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar Landsbankans.

Landsbankinn er sagður líklegur til að gera tilboð í írska sparisjóðinn Irish Nationwide Building Society á næstunni. Kaupverð liggur í um einum milljarði evra, jafnvirði 87 milljörðum íslenskra króna, að sögn írska dagblaðsins Independent.

Þrálátur orðrómur hefur verið um að Landsbankinn sé að skoða kaup á sparisjóðnum frá í maí síðastliðnum þegar Landsbankinn fékk HSBC, einn stærsta banka í Evrópu, til ráðgjafar um hugsanlegt tilboðferli.

Að sögn Independent eru meiri líkur nú en áður á því að Landsbankinn bjóði í sparisjóðinn þar sem aðrir keppinautar bankans um Irish Nationwide Society séu að íhuga að hætta við kaupin.

Írski sparisjóðurinn var metinn á 1,5 milljarða evra, jafnvirði rúmra 130 milljarða króna, fyrir ári. Markaðsvirði sparisjóðsins hefur hins vegar lækkað snarlega upp á síðkastið í kjölfar óróleika á fjármálamörkuðum sem stafar af vanskilaaukningu á bandarískum fasteignalánamarkaði. Það hefur komið harkalega niður á gengi fjármálafyrirtækja víða um heim.

Irish Nationwide Society er í eigu 125 þúsund félagsmanna sem ýmist eru lánveitendur eða lántakar. Í byrjun maí síðastliðnum var talið að gengi salan í gegn myndi hlutur hvers og eins verða á bilinu 10-15 þúsund evrur verði fallist á söluna. Independent telur hins vegar að nú fái þeir um átta þúsund pund fyrir hlut sinn.

Independent hefur eftir heimildum að Michael Fingleton, forstjóra sparisjóðsins, hafi verið ráðlagt að setja söluferlið á salt þar til óróleiki á fjármálamörkuðum líði hjá. Engu að síður er tekið fram að Fingleton vilji ljúka sölunni fyrir janúar á næsta ári en þá nær hann sjötugsaldri.

Gengi hlutabréfa í Landsbankanum hefur hækkað um tæpt prósentustig í dag og stendur gengi bankans í 42,3 krónum á hlut. Það hefur aldrei verið meira. Í byrjun síðasta mánaðar var fjárfestingageta bankans um þrjátíu milljarðar króna án útgáfu nýs hlutafjár.

Landsbankinn vildi ekki tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×