Erlent

Geimkapphlaup milli þriggja Asíuþjóða

Tölvuteikninga af Kaguya á braut umhverfis tunglið.
Tölvuteikninga af Kaguya á braut umhverfis tunglið. MYND/AFP

Ómannað geimkönnunarfar frá japönsku geimferðarstofnuninni komst í morgun á sporbraut umhverfis tunglið. Eru Japanir því fyrsta Asíuþjóðin sem tekst að koma geimfari á braut umhverfis tunglið. Þrjár Asíuþjóðir keppa nú um að sigra geiminn.

Japanska geimfarið ber nafnið Kaguya í höfuðið á ævintýraprinsessu sem samkvæmt japönskum þjóðsögum á að hafa lent á tunglinu. Geimfarið mun smám saman fara á sporbraut um 100 kílómetra fyrir ofan yfirborð tunglsins við miðbaug. Þar mun farið senda frá sér tvo minni gervihnetti sem fara á sporbraut um póla tunglsins. Ætlunin er að safna gögnum um yfirborð tunglsins og taka ljósmyndir. Er búist við því að fyrstu gögnin fari að berast um miðjan desembermánuð næstkomandi.

Kínverjar boða mannaða ferð til tunglsins
Nie Haisheng varð annar í röð kínverskra geimfara til að fara út í geim í október árið 2005.MYND/AFP

Svo virðist sem geimkapphlaup sé hafið milli Kínverja, Japana og Indverja. Kínverjar náðu miklu forskoti árið 2003 þegar þeir fyrstir Asíuþjóða náðu koma manni út í geim. Í mars á þessu ári lýstu þeir yfir þeirri ætlun sinni að senda ómannað geimfar til tunglsins seinna á árinu. Markmið þeirrar ferðar á að vera að rannsaka landslag og þykkt jarðefna á tunglinu.

Kínverjar hafa boðað frekari rannsóknarferðir til tunglsins og mannaða lendingu innann næstu 15 ára. Japanar hafa einnig boðað mannaðar ferðir til tunglsins fyrir árið 2020.

Indverjar munu á næstu mánuðum einnig skjóta á loft könnunarfari til tunglsins. Þeir hafa hins vegar enn sem komið er ekki boðað mannaðar geimferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×