Hundruð kínverskra námsmanna koma til Danmerkur á hverju ári og meirihluti þeirra hverfur strax á fyrstu mánuðunum. Nyhedsavisen danska segir að tveir af hverjum þremur hreinlega gufi upp. Enginn veit með vissu hvert þeir fara en lögreglan telur að þeir hverfi inn á Schengen svæðið. Aðallega til Suður-Evrópu þar sem þeir setjist að meðal landa sinna.
Á síðasta ári voru 412 kínverjar skráðir til náms í dönskum verknáms- og verslunarskólum. Af þeim hurfu meira en 250. Sem dæmi ná nefna að í Struer verknámsskólanum hófu 22 kínverjar nám í ársbyrjun 2006. Í árslok voru þrír eftir. Skólastjórinn segist ekki hafa hugmynd um hvar hinir séu.
Og það er ekki bara í Danmörku sem Kínverjarnir gufa upp. Fyrir nokkrum árum kom stór hópur til Íslands í skipulagða hópferð. Meirihluti þeirra skilaði sér aldrei heim.