Búrmiska andófskonan Aung San Suu Kyi segir að hún geti ekki fallist á þau skilyrði sem herforingjastjórnin setur fyrir viðræðum við hana. Herforingjarnir krefjast þess að fyrir fund með henni verði hún að hætta að styðja refsiaðgerðir gegn þeim og einnig mótmælaaðgerðir.
Í yfirlýsingu frá flokki Aung San segir að samningaviðræður verði að grundvallast á hreinskilni og sveigjanleika. Ekki sé hægt að setja fyrirfram skilyrði. Herforingjastjórnin bauðst til að eiga viðræður við andófskonuna eftir að hún var beitt miklum alþjóðlegum þrýstingi eftir fjöldamótmælin í síðasta mánuði.
Í gær lýstu hershöfðingjarnir því yfir að ekki stæði til þess að láta Aung San lausa. Hún hefur setið í stofufangelsi í tólf af síðustu átján árum. Henni voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 1991.