Mexíkóski rithöfundurinn Jose Luis Calvas hefur viðurkennt að hafa myrt unnustu sína en neitar að hafa steikt hana og étið. Þegar lögreglan réðst inn á heimili hans í síðustu viku fann hún sundurbútað lík kærustunnar í skáp í baðherberginu.
Lögreglan fann einnig steikt mannakjöt á kvöldverðarborðinu. Calvas segir að hann hafi bútað lík kærustunnar niður til þess að geta losað sig við það smátt og smátt með því að gefa hundum líkamshlutana.
Í íbúð hans fann lögreglan einnig hálfklárað handrit að bók sem átti að heita "Mannætueðli," eða eitthvað í þeim dúr.
Lögreglan grunar Calvas um að hafa myrt tvær aðrar konur á síðustu tveim árum, en hann neitar sök.