Juventus mistókst að komast upp að hlið Inter á toppi ítölsku A-deildarinnar í gær þegar liðið tapaði 3-1 fyrir Napoli. Tveir umdeildir vítaspyrnudómar tryggðu Napoli sigurinn.
Alessandro Del Piero kom Juventus yfir í upphafi síðari hálfleiks eftir að hafa eignast barn á mánudaginn en Walter Gargano jafnaði skömmu síðar fyrir Napoli.
Maurizio Domizzi skoraði svo úr tveimur vítaspyrnum á 62. og 70. mínútu og tryggði Napoli sigurinn. Forseti Juventus var æfur út í dómara leiksins og sagði báða dómana hafa verið kolranga.
Juventus er því með 17 stig í deildinni eftir tvö töp, þremur stigum á eftir Inter sem á erfiðan leik fyrir höndum gegn Palermo í dag. AC Milan tekur á móti Roma og Fiorentina mætir Genoa.
Napoli, sem varð gjaldþrota árið 2004, er komið í fimmta sæti deildarinnar eftir að hafa unnið sig upp um deildir tvö ár í röð.