Körfubolti

Arenas frá keppni næstu þrjá mánuði

Gilbert Arenas verður frá keppni fram á næsta ár
Gilbert Arenas verður frá keppni fram á næsta ár Nordic Photos / Getty Images

Skorarinn litríki Gilbert Arenas hjá Washington Wizards í NBA deildinni verður frá keppni næstu þrjá mánuðina eða svo eftir að hafa gengist undir hnéuppskurð í gær.

Arenas meiddist á vinstra hné síðasta vor og fór í aðgerð í sumar, en það tók að bólgna upp í fyrstu leikjum tímabilsins. Arenas hafði misst af síðustu tveimur leikjum Washington og fór í myndatöku í gær sem leiddi í ljós að ekki var allt með felldu.

"Ég byrjaði bara allt í einu að finna mikið til í hnénu og stífnaði allur upp. Það er fúlt að lenda í þessu núna af því ég hafði hlakkað til að ná mér á strik aftur, en það er ekki um annað að ræða en að byrja á fullu aftur í endurhæfingunni," sagði hinn eldhressi Arenas í gærkvöld.

Hann var þriðji stigahæsti leikmaður NBA deildarinnar í fyrra með rúm 28 stig að meðaltali í leik, en meiddist skömmu áður en úrslitakeppnin byrjaði og því var lið Washington án tveggja stjörnuleikmanna þegar úrslitakeppnin hófst. Liðið tapaði líka 4-0 fyrir Cleveland í fyrstu umferð.

"Við unnum að vísu tvo síðustu leiki sem Arenas missti af hjá okkur en þeir voru nú ekki á móti liðum eins og Dallas og San Antonio. Það er okkur gríðarlegt áfall að missa Gilbert," sagði Eddie Jordan, þjálfari Washington.

Nú er bara að bíða og sjá hvað Arenas hefur um málið að segja á blogginu sínu. Smelltu hér til að lesa bloggið hans á nba.com.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×