Erlent

Barnaníðingar með öðruvísi heila

Dr. Cantor segir að þó barnaníðingar stjórni ekki löngunum sínum, geti þeir stjórnað því hvað þeir gera.
Dr. Cantor segir að þó barnaníðingar stjórni ekki löngunum sínum, geti þeir stjórnað því hvað þeir gera. MYND/Getty
Ný rannsókn bendir til þess að hneigðir barnaníðinga geti verið afleiðing af lélegum tengingum í heila.

Vísindamenn notuðu sneiðmyndatöku til að bera saman heilastarfsemi barnaníðinga og annarra glæpamanna. Í ljós kom að barnaníðingarnir höfðu töluvert minna af hvítuvef, sem sér um að tengja saman mismunandi hluta heilans. Vísindamennirnir komust að því að virkni í ákveðnum svæðum heila barnaníðinganna var minni en annarra sjálfboðaliða þegar þeim var sýnt erótískt efni með fullorðnum einstaklingum.

Rannsóknin er gerð af Centre for Addiction and Mental Health í Toronto í Kanada og birtist í Journal of Psychiatry Research. Hún kemur í kjölfar rannsóknar vísindamanna við Yale háskóla, þar sem fram kom mismunur á hugsanamynstri barnaníðinga og heilbrigðra einstaklinga.

Forstöðumaður rannsóknarinnar, Dr James Cantor, sagði að rannsóknin benti til þess að barnaníðingana skorti töluvert á hvítuvef sem tengdi saman sex mismunandi svæði í heilanum sem öll spiluðu rullu í kynferðislegri örvun. Kenning hans er sú að skortur á tengingum í heila valdi því að mennirnir geti ekki greint almennilega á milli þess sem væri viðeigandi og óviðeigandi þegar kemur að því hvað örvar þá kynferðislega.

Hingað til hefur verið talið að barnahneigð tengist áfalli í æsku eða misnotkun. Hún hefur einnig verið tengd við lága greindarvísitölu, sem bendir til að tengsl séu við þróun heila. Barnaníðingar eru einnig þrisvar sinnum líklegri til að vera örvhentir en aðrir.

Dr. Cantor lagði áherslu á að rannsóknin benti ekki til þess að ekki ætti að sækja barnaníðinga til saka fyrir verknað sinn. ,,Þó þú getir ekki valið hvað vekur áhuga þinn kynferðislega þýðir það ekki að þú getir ekki valið hvað þú gerir." sagði Dr. Cantor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×