Sport

Örn í úrslitin á frábærum tíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Örn Arnarson sundkappi.
Örn Arnarson sundkappi.

Örn Arnarson náði þeim frábæra árangri að komast í úrslit í 100 metra baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Debrecen í Ungverjalandi.

Hann var aðeins tíu hundraðshlutum úr sekúndu frá fjögurra ára gömlu Íslandsmeti sínu en hann náði samtals fimmta besta tímanum í dag og var ekki nema 0,58 sekúndum frá besta tímanum.

Örn synti í fyrri undanúrslitariðlinum í dag og fór fyrri fimmtíu metrana á 25,09 sekúndum og var í öðru sæti eftir frábært start. Hann hélt stöðu sinni vel og kom svo í mark, enn í öðru sæti í sínum riðli, á 51,84 sekúndum.

 

Örn náði sjötta besta tímanum í undanrásunum í morgun er hann synti á 52,75 sekúndum. Íslandsmet hans er 51,74 sekúndur.

Hann náði einnig að komast í úrslit í 50 metra baksundi í gær þar sem hann lenti í sjötta sæti á nýju Norðurlandameti.

Úrslitasundið í 100 metra baksundi fer fram á morgun. Bestum tíma í dag náði Þjóðverjinn Helge Meeuw en hann synti á 51,26 sekúndum.

Auk þess keppir Örn svo í 50 metra flugsundi á morgun en það er lokadagur mótsins í Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×