Erlent

Loftsteinn gæti rekist á Mars í janúar

Töluverðar líkur eru taldar á því að loftsteinn rekist á plánetuna Mars í janúar á næsta ári. Vísindamenn telja líkurnar á þessu 1:75 og að hugsanlegur árekstur verði þann 30. janúar.

Fyrrgreindar líkur eru óvenjulegar að mati Steve Chesley hjá NASA, bandarísku geimferðastofnuninni. Yfirleitt er talað um mun hærri stuðla þegar reiknaðir eru möguleikarnar á árekstrum sem þessum.

Loftsteinninn sem hér um ræðir ber nafnið 2007 WD5 en hann fannst í síðasta mánuði. Hann er svipaður að stærð og loftsteinn sá sem féll til jarðar í Síberíu árið 1908. Við þann árekstur losnaði úr læðingi svipuð orka og úr 15 megatonna kjarnorkusprengju.

Chelsey segir að vitað sé að 2007 WD5 muni fara framhjá Mars í næsta mánuði. "Hann mun sennilega fara framhjá plánetunni en möguleikinn á árekstri er til staðar," segir Chelsey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×