Fjúkandi jólatré Dr. Gunni skrifar 10. janúar 2008 06:00 Nú er þynnkutíð. Það er luntur í mannskapnum. Jólaskrautið er komið ofan í kassana. Allt orðið dimmt á ný. Allsnakin jólatré fjúka um göturnar, fyrrum gullbryddað og ljósumvafið stofustáss, nú úrgangur. Jæja, þau verða þó að minnsta kosti að moltu, reyni ég að hugsa uppbyggilega og segi syni mínum á leið í leikskólann að jólatrén endi niðurkurluð í göngustíg ef þau verða heppin. Ég hugsa samt heimspekilega með sjálfum mér að örlög jólatrjánna séu eins og örlög manns sjálfs. Við eigum okkar tíma í gleðskapnum en endum sem molta. Og í sumum er kveikt, af starfsmönnum kirkjugarðanna eða óknyttastrákum. samt er gott að fólk hefur eitthvað til að stefna að nú þegar glaðlegri ofgnótt jólanna sleppir. Það helst að brenna af sér belginn og borga niður jólavísað. Hmm, ætti ég að skipta reikningnum í þrjá mánuði eða fjóra? hugsar maður í myrkrinu og bætir við (ekki ósvipað og á sama tíma í fyrra): djöfull ætla ég að standa mig í fjármálunum þetta árið og láta þetta ekki endurtaka sig um næstu jól. Á þessum tímapunkti, eins og ávallt þegar peningahugsanir eru of fyrirferðarmiklar, er eins og ævi manns opinberist. Það sem maður á ólifað birtist eins og excel-skjal og það er ófögur sýn: Endalaust hark til að borga niður reikninga. Síðasti greiðsluseðillinn af íbúðinni kemur inn um lúguna árið 2044, krónur 3.700.000 með vöxtum og verðbótum. Eins og segir í dægurlagi eftir Pál Óskar á maður bara eitt líf sem ber að njóta í botn því maður fær ekki annað tækifæri. Fáir halda því fram að maðurinn sé eilífðarvél með endalaus líf í bakhöndinni, hvað þá að peningalaus himnavist bíði manns með tilheyrandi afslappelsi. Þegar þetta liggur fyrir fer maður að íhuga leiðir út úr excel-skjalinu. Búferlaflutningur til afskekktrar eyju í Kyrrahafinu virðist vænlegur kostur. Maður fer jafnvel að skoða fasteignaauglýsingar á Puka Puka á netinu. Þetta ástand varir sem betur fer ekki lengi. Fjúkandi jólatrén eru tínd upp eitt af öðru og greiðsluþjónustan sér um vísað. Einn daginn fattar maður svo að daginn er farið að lengja allverulega. Ef maður dregur andann nógu djúpt má jafnvel finna lykt af vori. Örlitla lykt af vori en það er nóg. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Dr. Gunni Mest lesið Kirkjur og kynfræðsla Bjarni Karlsson Skoðun Stóriðjutíminn á Íslandi er að renna sitt skeið Guðmundur Franklin Jónsson Skoðun Lesum meira með börnunum okkar Steinn Jóhannsson Skoðun Kynjajafnrétti á ekki að stöðvast við hurð heilbrigðiskerfisins Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun Íbúðalán Landsbankans og fyrstu kaupendur Helgi Teitur Helgason Skoðun Að læra íslensku sem annað mál: ný brú milli íslensku og ensku Guðrún Nordal Skoðun Barnvæn borg byggist á traustu leikskólakerfi Stefán Pettersson Skoðun Núll mínútur og þrjátíuogeittþúsund Grétar Birgisson Skoðun Ójöfnuður í fjármögnun nýsköpunarverkefna Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Ég þarf ekki að læra íslensku til að búa hérna Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Nú er þynnkutíð. Það er luntur í mannskapnum. Jólaskrautið er komið ofan í kassana. Allt orðið dimmt á ný. Allsnakin jólatré fjúka um göturnar, fyrrum gullbryddað og ljósumvafið stofustáss, nú úrgangur. Jæja, þau verða þó að minnsta kosti að moltu, reyni ég að hugsa uppbyggilega og segi syni mínum á leið í leikskólann að jólatrén endi niðurkurluð í göngustíg ef þau verða heppin. Ég hugsa samt heimspekilega með sjálfum mér að örlög jólatrjánna séu eins og örlög manns sjálfs. Við eigum okkar tíma í gleðskapnum en endum sem molta. Og í sumum er kveikt, af starfsmönnum kirkjugarðanna eða óknyttastrákum. samt er gott að fólk hefur eitthvað til að stefna að nú þegar glaðlegri ofgnótt jólanna sleppir. Það helst að brenna af sér belginn og borga niður jólavísað. Hmm, ætti ég að skipta reikningnum í þrjá mánuði eða fjóra? hugsar maður í myrkrinu og bætir við (ekki ósvipað og á sama tíma í fyrra): djöfull ætla ég að standa mig í fjármálunum þetta árið og láta þetta ekki endurtaka sig um næstu jól. Á þessum tímapunkti, eins og ávallt þegar peningahugsanir eru of fyrirferðarmiklar, er eins og ævi manns opinberist. Það sem maður á ólifað birtist eins og excel-skjal og það er ófögur sýn: Endalaust hark til að borga niður reikninga. Síðasti greiðsluseðillinn af íbúðinni kemur inn um lúguna árið 2044, krónur 3.700.000 með vöxtum og verðbótum. Eins og segir í dægurlagi eftir Pál Óskar á maður bara eitt líf sem ber að njóta í botn því maður fær ekki annað tækifæri. Fáir halda því fram að maðurinn sé eilífðarvél með endalaus líf í bakhöndinni, hvað þá að peningalaus himnavist bíði manns með tilheyrandi afslappelsi. Þegar þetta liggur fyrir fer maður að íhuga leiðir út úr excel-skjalinu. Búferlaflutningur til afskekktrar eyju í Kyrrahafinu virðist vænlegur kostur. Maður fer jafnvel að skoða fasteignaauglýsingar á Puka Puka á netinu. Þetta ástand varir sem betur fer ekki lengi. Fjúkandi jólatrén eru tínd upp eitt af öðru og greiðsluþjónustan sér um vísað. Einn daginn fattar maður svo að daginn er farið að lengja allverulega. Ef maður dregur andann nógu djúpt má jafnvel finna lykt af vori. Örlitla lykt af vori en það er nóg.
Kynjajafnrétti á ekki að stöðvast við hurð heilbrigðiskerfisins Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun
Kynjajafnrétti á ekki að stöðvast við hurð heilbrigðiskerfisins Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun