Rússneska liðið Zenit St. Pétursborg gerði sér lítið fyrir og rúllaði yfir Bayern München í Evrópukeppni félagsliða, UEFA bikarnum, 4-0. Þetta var síðari leikur þessara liða en sá fyrri endaði með jafntefli í Þýskalandi 1-1.
Zenit fer því áfram á samtals 5-1 sigri sem er mjög óvænt en fyrir undanúrslitaleikina var Bayern talið sigurstranglegasta liðið í keppninni.
Pavel Pogrebnyak skoraði tvö mörk fyrir Zenit í leiknum í dag en Konstantin Zyrianov og Victor Fayzulin skoruðu hin mörkin.
Síðar í kvöld ræðst hvaða lið mætir Zenit í úrslitaleiknum en klukkan 18:45 hefst leikur Fiorentina og Glasgow Rangers á Ítalíu. Fyrri viðureignin þar endaði með markalausu jafntefli.