Þegar G. Pétur stal fréttunum Davíð Þór Jónsson skrifar 12. október 2008 00:01 Um daginn var ég skammaður fyrir að skrifa bara um einhver smámál, en ekki um stórmálin sem eru efst á baugi: „Heimurinn er að farast og þú ert að rausa um tittlingaskít!" En ég geri þetta af yfirlögðu ráði. Mér finnast smámálin nefnilega undantekningalítið mun áhugaverðari en stórmálin. Til dæmis hafði ég mjög gaman af fréttum hér áður fyrr, þegar þar var sagt frá því helsta í heimsmálunum, smáu sem stóru. Þá mynduðu smáatburðir nauðsynlegt mótvægi við stóratburði. „Hafði" segi ég því nú er þessu öðruvísi farið. Nú eru bara stórmál í boði. Um daginn var ekki einu sinni pláss fyrir íþróttafréttir í Sjónvarpinu fyrir stórfréttum úr heimi bókfærslu og viðskipta. Ég man að fyrir nokkrum árum byrjaði þáttur í sjónvarpi sem hét Viðskiptafréttir og gekk út á það að umsjónarmaðurinn, hinn geðþekki G. Pétur Matthíasson, ruddi upp úr sér tölfræði um gengi hlutabréfa og helstu gjaldmiðla. Ég man að ég gapti af undrun fyrst þegar ég sá þetta ævintýralega leiðinlega sjónvarpsefni. Ekki datt mér í hug að nokkur maður nennti að horfa á þetta, þeir sem þyrftu þessar upplýsingar fengju þær annars staðar, þeir sem ekki þyrftu þær skiptu um stöð. Ég spáði þessum þætti því ekki löngum lífdögum. Illu heilli reyndist ég ósannspár. Þættinum óx fiskur um hrygg frekar en hitt. Smám saman yfirtók hann aðalfréttatímann eins og hvimleið og skæð sýking. Nú er svo komið að allar fréttir eru viðskiptafréttir, ekki bara í sjónvarpi heldur líka í daglegum samskiptum fólks. Um daginn lagði ég leið mína á gamla eftirlætispöbbinn minn til að spjalla við fyllibytturnar um síðustu atburði. Þetta var daginn eftir lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, en um hvað haldið þið að hafi verið rætt þarna á barnum þennan sögulega mánudagseftirmiðdag? Dramatíkina í lokaumferðinni? Seiglu Hafnfirðinga og seinheppni Keflvíkinga? Nei, það var verið að ræða vísitölur og vogunarsjóði, vaxtabætur og verðtryggingarálag. Ef þetta er að vera dagdrykkjumaður í dag er ég feginn að geta notað tímann í annað. Ég trúi því hins vegar og treysti að þegar fram líða stundir muni sannir fréttafíklar eins og ég minnast ársins í ár með hryllingi. Árið 2008 verður annus horribilis í minningunni, árið þegar G. Pétur stal fréttunum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Skuldin við úthverfin Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Skoðun Einelti er dauðans alvara Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Réttlæti hins sterka. Gildra dómarans Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Málgögn og gervigreind Steinþór Steingrímsson,Einar Freyr Sigurðsson,Helga Hilmisdóttir Skoðun Það sem Njáll sagði ykkur ekki Inga Lind Karlsdóttir Skoðun Engin eftirspurn eftir Viðreisnar- og Samfylkingarmódelinu Andri Steinn Hilmarsson Skoðun Íslenska þjóð, þú ert núna að gleyma Sighvatur Björgvinsson Skoðun Afnám tilfærslu milli skattþrepa Breki Pálsson Skoðun Opið bréf til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Bogi Ragnarsson Skoðun
Um daginn var ég skammaður fyrir að skrifa bara um einhver smámál, en ekki um stórmálin sem eru efst á baugi: „Heimurinn er að farast og þú ert að rausa um tittlingaskít!" En ég geri þetta af yfirlögðu ráði. Mér finnast smámálin nefnilega undantekningalítið mun áhugaverðari en stórmálin. Til dæmis hafði ég mjög gaman af fréttum hér áður fyrr, þegar þar var sagt frá því helsta í heimsmálunum, smáu sem stóru. Þá mynduðu smáatburðir nauðsynlegt mótvægi við stóratburði. „Hafði" segi ég því nú er þessu öðruvísi farið. Nú eru bara stórmál í boði. Um daginn var ekki einu sinni pláss fyrir íþróttafréttir í Sjónvarpinu fyrir stórfréttum úr heimi bókfærslu og viðskipta. Ég man að fyrir nokkrum árum byrjaði þáttur í sjónvarpi sem hét Viðskiptafréttir og gekk út á það að umsjónarmaðurinn, hinn geðþekki G. Pétur Matthíasson, ruddi upp úr sér tölfræði um gengi hlutabréfa og helstu gjaldmiðla. Ég man að ég gapti af undrun fyrst þegar ég sá þetta ævintýralega leiðinlega sjónvarpsefni. Ekki datt mér í hug að nokkur maður nennti að horfa á þetta, þeir sem þyrftu þessar upplýsingar fengju þær annars staðar, þeir sem ekki þyrftu þær skiptu um stöð. Ég spáði þessum þætti því ekki löngum lífdögum. Illu heilli reyndist ég ósannspár. Þættinum óx fiskur um hrygg frekar en hitt. Smám saman yfirtók hann aðalfréttatímann eins og hvimleið og skæð sýking. Nú er svo komið að allar fréttir eru viðskiptafréttir, ekki bara í sjónvarpi heldur líka í daglegum samskiptum fólks. Um daginn lagði ég leið mína á gamla eftirlætispöbbinn minn til að spjalla við fyllibytturnar um síðustu atburði. Þetta var daginn eftir lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, en um hvað haldið þið að hafi verið rætt þarna á barnum þennan sögulega mánudagseftirmiðdag? Dramatíkina í lokaumferðinni? Seiglu Hafnfirðinga og seinheppni Keflvíkinga? Nei, það var verið að ræða vísitölur og vogunarsjóði, vaxtabætur og verðtryggingarálag. Ef þetta er að vera dagdrykkjumaður í dag er ég feginn að geta notað tímann í annað. Ég trúi því hins vegar og treysti að þegar fram líða stundir muni sannir fréttafíklar eins og ég minnast ársins í ár með hryllingi. Árið 2008 verður annus horribilis í minningunni, árið þegar G. Pétur stal fréttunum.
Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Hafa íslenskir neytendur sama rétt og evrópskir? Ásthildur Lóa Þórsdóttir,Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun