Siðræn gildi Þorsteinn Pálsson skrifar 7. ágúst 2008 08:00 Eftir þeim lögum sem í gildi eru um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Frá þessari aðalreglu má þó gera undantekningar. Þar koma lögreglustjórar ásamt öðrum við sögu. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú nýlega gefið út jákvæða umsögn um slíka undanþágu. Áður hafði lögreglustjórinn veitt neikvæða umsögn. Dómsmálaráðherra þótti sú niðurstaða ekki byggja á formlega gildum rökstuðningi og felldi hana því úr gildi. Pólitísk umræða um þetta álitaefni hefur verið af fremur skornum skammti. Oddviti Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur hefur þó haft uppi nokkur andmæli. Allrar athygli er vert að mótspyrna gagnvart atvinnustarfsemi af þessu tagi kemur nú helst frá þeim sem standa lengst til vinstri í pólitík. Sú var tíð að hægri vængur stjórnmálanna hafði þá ímynd að standa eindregnast vörð um almennt siðgæði og siðræn gildi í samfélaginu. Þá var þess fremur að vænta að hoggið væri í múra borgaralegra dyggða og kristins siðgæðis frá vinstri. Þessar markalínur virðast ekki jafn skýrar og áður. Forystumenn sjálfstæðismanna í Reykjavík hafa verið óhræddir við að gera hosur sínar grænar fyrir Vinstri grænu á sviðum orkunýtingar og skipulagsmála. Um þær hosur má deila. En vel færi á því að þessi pólitísku öfl legðu skipum sínum saman til þess að takast á við viðfangsefni af því tagi sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fékk að glíma við upp á nýtt. Ýmsir kunna að líta svo á að spurningar sem lúta að svo ómerkilegum hlutum eins og að veita undanþágu frá almennum reglum um bann við nektarsýningum sé tæknilegt úrlausnarefni neðan við verkahring stjórnmálamanna. Það má vera. En hugmyndafræðin að baki lagareglunni er pólitískt viðfangsefni. Almennt viðurkennd siðræn gildi eru forsenda lagareglna. Reynsla grannþjóðanna sýnir að tilslakanir á lagareglum á þessu sviði vegna minni almennrar umhugusunar um siðferðileg efni á liðnum áratugum hafa leitt af sér vaxandi vandamál. Þau eru ef til vill ekki öll ný af nálinni í sögulegu samhengi en hafa komið fram í nýrri og alvarlegri mynd en fyrr. Með öðrum orðum hefur verið bent á að vændi og mansal þrífst víða í skjóli nektardansstaða ásamt ýmiss konar annarri afbrotastarfsemi. Ekkert verður fullyrt um að það eigi við í því einstaka máli sem lögreglustjórinn fékk til umsagnar. En þetta er almenn reynsla margra þjóða. Þeir almannahagsmunir sem um er að tefla eiga að réttu lagi að hafa nokkurt vægi við mat á hvers kyns lagareglur eru settar á þessu sviði sem öðrum. Fjórir þingmenn Vinstri græns fluttu frumvarp á Alþingi á liðnum vetri um að afnema þá undanþágu í veitingastaðalöggjöfinni sem hér er gerð að umtalsefni. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ætlan þeirra sé meðal annars að efla almenna siðgæðisvitund og meðvitund um siðræn gildi í samfélaginu. Alþingi kemur saman í haust til þess að fjalla um brýn óafgreidd mál. Rétt er að mæla með því að þetta frumvarp verði þar á forgangslista. Þeir sem á móti kunna að vera þurfa að skýra þá siðferðilegu afstöðu sem að baki því býr. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun
Eftir þeim lögum sem í gildi eru um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Frá þessari aðalreglu má þó gera undantekningar. Þar koma lögreglustjórar ásamt öðrum við sögu. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú nýlega gefið út jákvæða umsögn um slíka undanþágu. Áður hafði lögreglustjórinn veitt neikvæða umsögn. Dómsmálaráðherra þótti sú niðurstaða ekki byggja á formlega gildum rökstuðningi og felldi hana því úr gildi. Pólitísk umræða um þetta álitaefni hefur verið af fremur skornum skammti. Oddviti Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur hefur þó haft uppi nokkur andmæli. Allrar athygli er vert að mótspyrna gagnvart atvinnustarfsemi af þessu tagi kemur nú helst frá þeim sem standa lengst til vinstri í pólitík. Sú var tíð að hægri vængur stjórnmálanna hafði þá ímynd að standa eindregnast vörð um almennt siðgæði og siðræn gildi í samfélaginu. Þá var þess fremur að vænta að hoggið væri í múra borgaralegra dyggða og kristins siðgæðis frá vinstri. Þessar markalínur virðast ekki jafn skýrar og áður. Forystumenn sjálfstæðismanna í Reykjavík hafa verið óhræddir við að gera hosur sínar grænar fyrir Vinstri grænu á sviðum orkunýtingar og skipulagsmála. Um þær hosur má deila. En vel færi á því að þessi pólitísku öfl legðu skipum sínum saman til þess að takast á við viðfangsefni af því tagi sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fékk að glíma við upp á nýtt. Ýmsir kunna að líta svo á að spurningar sem lúta að svo ómerkilegum hlutum eins og að veita undanþágu frá almennum reglum um bann við nektarsýningum sé tæknilegt úrlausnarefni neðan við verkahring stjórnmálamanna. Það má vera. En hugmyndafræðin að baki lagareglunni er pólitískt viðfangsefni. Almennt viðurkennd siðræn gildi eru forsenda lagareglna. Reynsla grannþjóðanna sýnir að tilslakanir á lagareglum á þessu sviði vegna minni almennrar umhugusunar um siðferðileg efni á liðnum áratugum hafa leitt af sér vaxandi vandamál. Þau eru ef til vill ekki öll ný af nálinni í sögulegu samhengi en hafa komið fram í nýrri og alvarlegri mynd en fyrr. Með öðrum orðum hefur verið bent á að vændi og mansal þrífst víða í skjóli nektardansstaða ásamt ýmiss konar annarri afbrotastarfsemi. Ekkert verður fullyrt um að það eigi við í því einstaka máli sem lögreglustjórinn fékk til umsagnar. En þetta er almenn reynsla margra þjóða. Þeir almannahagsmunir sem um er að tefla eiga að réttu lagi að hafa nokkurt vægi við mat á hvers kyns lagareglur eru settar á þessu sviði sem öðrum. Fjórir þingmenn Vinstri græns fluttu frumvarp á Alþingi á liðnum vetri um að afnema þá undanþágu í veitingastaðalöggjöfinni sem hér er gerð að umtalsefni. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ætlan þeirra sé meðal annars að efla almenna siðgæðisvitund og meðvitund um siðræn gildi í samfélaginu. Alþingi kemur saman í haust til þess að fjalla um brýn óafgreidd mál. Rétt er að mæla með því að þetta frumvarp verði þar á forgangslista. Þeir sem á móti kunna að vera þurfa að skýra þá siðferðilegu afstöðu sem að baki því býr.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun