Körfubolti

Kobe er bestur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant, leikmaður LA Lakers.
Kobe Bryant, leikmaður LA Lakers. Nordic Photos / Getty Images

Samkvæmt frétt Los Angeles Times hefur Kobe Bryant verið valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar þetta tímabilið en þetta er í fyrsta sinn sem hann hlýtur útnefninguna.

Samkvæmt blaðinu verður David Stern staddur í Los Angeles í næstu viku til að afhenda Bryant viðurkenningu sína. Liðið hans, LA Lakers, tekur á móti Utah í fyrsta leik liðanna í rimmu þeirra í annarri umferð úrslitakeppninnar á morgun.

Talsmenn Lakers hafa ekkert heyrt frá forráðamönnum deildarinnar varðandi þetta og eru þetta því enn óstaðfestar fregnir.

Bryant hefur tvisvar verið þriðji í þessu kjöri, fyrst tímabilið 2002-3 og svo aftur í fyrra þegar Dirk Nowitzky hlaut útnefninguna.

Hann skoraði að meðaltali 28,3 stig í leik í vetur, tók 6,3 fráköst, gaf 5,4 stoðsendingar og stal 1,8 boltum að meðaltali. Hann kom við sögu í öllum 82 leikjunum á tímabilinu þó svo að hann hafi rifið liðband í litla fingri í febrúar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×