ÍBV tryggði sér í kvöld sæti í Landsbankadeild karla í knattspyrnu á ný eftir 1-0 sigur á KS/Leiftri í kvöld. Sigurinn tryggði Eyjamönnum efsta sæti 1. deildarinnar en Stjarnan hefur náð öðru sætinu eftir leiki kvöldsins.
Stjarnan komst í kvöld einu stigi upp fyrir Selfoss í annað sæti deildarinnar með 1-0 sigri á KA í Garðabæ. Á sama tíma töpuðu Selfyssingar 2-1 fyrir Fjarðabyggð fyrir austan í dramatískum leik þar sem gestirnir léku hálfan leikinn manni færri og tvær vítaspyrnur fóru í súginn.
Leiknir í Breiðholti tryggði veru sína í deildinni með 2-1 sigri á Njarðvík, en úrslitin þýða að suðurnesjaliðið er fallið.
Víkingur Ólafsvík lagði Víking frá Reykjavík 2-1 og Þórsarar og Haukar gerðu 1-1 jafntefli fyrir norðan.