Rússar sögðust í dag ætla að senda liðsauka til friðargæslusveita sinna í Abkasíu og Suður Ossetíu.
Þeir segjast hafa undir höndum sönnunargögn um að her Georgíu ætli að ráðast inn í héruðin tvö. Héruðin vilja fá sjálfstæði frá Georgíu.
Stjórnvöld í Georgíu segja allt tal um innrás út í bláinn. Rússar séu þarna aðeins að hella olíu á hugsanlegt ófriðarbál.
Rússar tilkynntu fyrr í þessum mánuði að þeir ætluðu að taka upp lagaleg tengsl við héruðin tvö.
Þeir gengu ekki svo langt að viðurkenna sjálfstæði þeirra. Þeir eiga enda sjálfir í vandræðum með héruð sem vilja aðskilnað frá Rússlandi, eins og til dæmis Tsjetsníu.