Körfubolti

NBA: Celtics vann aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það var vel passað upp á LeBron James í leiknum.
Það var vel passað upp á LeBron James í leiknum. Nordic Photos / Getty Images

Boston Celtics vann í nótt sinn annan sigur á Cleveland á meðan að San Antonio vann loks sinn fyrsta leik gegn New Orleans Hornets.

Boston vann Cleveland, 89-73, þar sem LeBron James fann sig engan veginn annan leikinn í röð. Forysta Boston er þar með orðin 2-0 í einvíginu en næsti leikur fer fram á heimavelli Cleveland.

Í síðasta leik hitti James úr tveimur af átján skotum sínum. Í nótt hitti hann úr sex af 24 og skoraði 21 stig. Alls var skotnýting Cleveland 35,6 prósent í leiknum.

Boston náði tökum á leiknum í öðrum leikhluta er liðið sautján stiga viðsnúningi. Frá upphafi annars leikhluta fram í byrjun þess þriðja skoraði Boston 36 stig gegn tíu hjá Cleveland.

Paul Pierce var með nítján stig fyrir Boston, Kevin Garnett þrettán stig og tólf fráköst. Ray Allen skoraði sextán stig. Zydrunas Ilgauskas skoraði nítján fyrir Cleveland.

San Antonio vann New Orleans, 110-99, og minnkaði þar með muninn í 2-1 í einvígi liðanna. Sigurinn var afar þýðingarmikill enda hefur ekkert NBA-lið í sögunni náð að vinna einvígi eftir að hafa lent 3-0 undir.

New Orleans náði að minnka muninn í 90-88 í fjórða leikhluta en þá fór San Antonio á 11-0 sprett og kláraði leikinn.

Tony Parker og Manu Ginobili skoruðu 31 stig hver og Tim Duncan var með sextán stig og þrettán fráköst fyrir San Antonio. Chris Paul var stigahæstur hjá New Orleans með 35 stig og níu stoðsendingar. David West var með 23 stig og tólf fráköst.

Fjórði leikur liðanna fer fram á sunnudagskvöldið í San Antonio og verður væntanlega í beinni útsendingu á NBA TV.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×