Körfubolti

NBA í nótt: Loksins vann Dallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Nowitzky fór mikinn gegn New York í nótt.
Dirk Nowitzky fór mikinn gegn New York í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Dallas batt enda á fimm leikja taphrinu er liðið vann sigur á New York í nótt, 124-114, í framlengdum leik þar sem Dirk Nowitzky skoraði 39 stig fyrir Dallas. Þar af sjö í framlengingunni.

Josh Howard átti einnig afar góðan leik fyrir Dallas og skoraði 31 stig auk þess sem hann tók fjórtán fráköst.

Dallas hefur byrjað afar illa á tímabilinu og er þetta versta byrjun liðsins í áratug. New York hafði yfirhöndina lengst af í leiknum en Dallas náði að jafna metin undir lokin.

Zach Randolph skoraði 27 stig fyrir New York og tók átján fráköst.

Orlando vann Charlotte, 90-85. Hedo Turkoglu skoraði 20 stig fyrir Orlando og Mickael Pietrus átján.

Toronto vann Miami, 107-96. Chris Bosh skoraði 27 stig fyrir Toronto og Jermaine O'Neal ellefu auk þess sem hann tók átján fráköst. Dwyane Wade skoraði 29 stig fyrir Miami.

Phoenix vann Detroit, 104-86. Amare Stoudemire var með 29 stig og ellefu fráköst en hann hélt upp á 26 ára afmælið sitt í gær. Shaquille O'Neal fékk reyndar að fjúka út af strax í öðrum leikhluta eftir að hann braut illa á Rodney Stuckey, leikmanni Detroit.

Denver vann Minnesota, 90-84, þar sem Chauncey Billups skoraði 26 stig fyrir Denver en Minnesota tapaði þar með sínum áttunda leik í röð.

San Antonio vann Sacramento, 90-88. Michael Finley skoraði 21 stig og Tim Duncan 20 fyrir San Antonio. Duncan skoraði tvær lykilkörfur á síðustu mínútu leiksins sem tryggði San Antonio sigurinn í leiknum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×