Körfubolti

Vujacic var lykillinn

Sasha Vujacic var hetja Lakers í nótt
Sasha Vujacic var hetja Lakers í nótt NordcPhotos/GettyImages

LA Lakers náði í nótt að minnka muninn í 2-1 í úrslitaeinvígi sínu við Boston í NBA deildinni með 87-81 sigri á heimavelli sínum. Rétt eins og í öðrum leiknum var það ólíkleg hetja sem steig á svið og réði úrslitum.

Kobe Bryant var frábær í liði Lakers og skoraði 36 stig, en það voru 20 stig varamannsins Sasha Vujacic sem breyttu leiknum í lokin. Vujacic hitti mjög vel úr skotum sínum og skoraði 8 af 20 stigum sínum í lokaleikhlutanum.

"Kobe var frábær, en það var Vujacic sem gerði gæfumuninn hjá þeim," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston. "Við vissum að við yrðum að vinna leik í þessu einvígi þar sem Kobe spilar vel, en við ætluðum að reyna að halda aftur af öðrum mönnum í Lakers-liðinu," sagði Rivers.

Vujacic, sem átti ekki sérlega góðan leik í fyrstu tveimur viðureignunum í Boston, var að vonum ánægður með framlag sitt. Hann bætti upp fyrir skelfilega frammistöðu þeirra Pau Gasol og Lamar Odom hjá Lakers sem voru fjarri sínu besta í gær.

"Ég lifi á því að fá svona skot. Svona gengur þetta þegar við náum að dreifa spilinu okkar vel. Þegar Kobe fær á sig tvídekkun, opnast mikið fyrir okkur hina," sagði Vujacic.

Fjórði leikur liðanna fer fram í Los Angeles klukkan eitt eftir miðnætti á fimmtudagskvöldið og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×