Handbolti

Grátlegt tap fyrir Suður-Kóreu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Afdrifaríkt. Skot Ásgeirs Arnar í blálokin fer yfir markvörðinn en í slána. Ótrúlega svekkjandi.
Afdrifaríkt. Skot Ásgeirs Arnar í blálokin fer yfir markvörðinn en í slána. Ótrúlega svekkjandi. Mynd/Vilhelm

Eins og óttast var átti íslenska liðið í vandræðum með lið Suður-Kóreu eins og önnur lið á Ólympíuleikunum í Peking. S-Kórea vann, 22-21.

Suður-Kórea sýndi efnilegan leik gegn Þýskalandi í fyrsta leik, vann svo Evrópumeistara Dani í síðasta leik og Ísland svo í dag.

Leikstíll liðsins er líklega of framandi fyrir evrópsku liðin sem ráða illa við framliggjandi vörn Kóreumanna. Íslenski sóknarleikurinn var langt frá sínu besta í dag eins og sést best á því að liðið skoraði aðeins 21 mark.

Björgvin Páll Gústavsson var besti leikmaður íslenska liðsins en þó svo að markvarslan hafi verið í góðu lagi í dag tókst liðinu ekki að vinna. Það er fremur sjaldgæft.

Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson voru algerlega ósýnilegir í leiknum og er það einfaldlega of stór biti fyrir íslenska liðið. Þessir tveir menn eru lykilmenn í íslenska sóknarleiknum og ganga hlutirnir erfiðlega ef þeir eru ekki upp á sitt besta. Samanlagt skoruðu þeir tvö mörk í leiknum.

Suður-Kórea komst í 3-1 í leiknum en Ísland sýndi þá efnilega takta með því að skora fjögur mörk í röð. En aftur komust S-Kóreumenn inn í leikinn og leiddu allt til enda, nema í stöðunni 9-8 fyrir Ísland þegar fjórar mínútur voru eftir. En þá skoruðu S-Kóreumenn fjögur mörk í röð.

Síðari hálfleikur byrjaði mjög illa og reyndar voru fyrstu 20 mínúturnar frekar slæmar. Mestur varð munurinn fimm mörk, 19-14, en þá vaknaði íslenska liðsins til lífsins.

Ísland hefði getað jafnað metin úr síðustu sókn sinni í leiknum en Ásgeir Örn Hallgrímsson sem þá tók sitt eina skot í leiknum skaut í slá úr opnu færi í horninu. Einkar svekkjandi en niðurstaðan eins marks sigur Suður-Kóreu, 22-21.

Skotnýting íslenska liðsins var skelfileg eða 48%. Markverðir S-Kóreu vörðu fjórtán skot en níu skot íslenska liðsins fór einfaldlega framhjá. Það er of mikið. Ísland fór illa með nokkur hraðaupphlaup og enn fleiri dauðafæri sem var liðinu of dýrkeypt.

Þýskaland, Suður-Kórea og Ísland eru öll með fjögur stig og Rússar geta bæst í þann hóp með sigri á Dönum síðar í dag.

Vísir var með beina lýsingu frá leiknum sem má lesa hér að neðan.

Tölfræði leiksins:

Ísland - Suður-Kórea 21-22 (9-10)

Gangur leiksins: 0-1, 1-3, 5-3, 5-6, 7-7, 9-8, (9-10), 9-12, 11-12, 11-15, 13-17, 14-19, 17-19, 18-21, 19-22, 21-22.

Mörk Íslands (skot):

Logi Geirsson 5 (7)

Guðjón Valur Sigurðsson 5 (7)

Alexander Petersson 4 (11)

Sigfús Sigurðsson 2 (2)

Arnór Atlason 2 (3)

Ingimundur Ingimundarson 1 (1)

Ólafur Stefánsson 1 (4)

Snorri Steinn Guðjónsson 1/1 (5/2)

Ásgeir Örn Hallgrímsson (1)

Róbert Gunnarsson (3)

Skotnýting: 21/44 (48%)

Vítanýting: Skorað úr 1 af 2.

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 17/1 (39/4, 44%)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 4 (Guðjón Valur 2, Alexander 1 og Ingimundur 1).

Fiskuð víti: Róbert 1 og Arnór 1.

Utan vallar: 6 mínútur.

Mörk S-Kóreu:

K. Yoo 6

S. Jung 3

J. Lee 3

C. Cho 3/2

J. Park 3

K. Ko 2

W. Paek 2

Skotnýting: 22/42 (52%)

Vítanýting: Skorað úr 3 af 4.

Varin skot:

K. Han 13/1 (31/2, 42%, 50 mín)

I. Kang 1 (4, 25%, 10 mín)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 2.

Fiskuð víti: J. Park 3 og W. Paek 1.

Utan vallar: 2 mínútur.

07.24 Ísland - S-Kórea 21-22 lokatölur

Ásgeir Örn Hallgrímsson fékk frábært færi á síðustu sekúndum leiksins inn úr horninu. Hann vippaði yfir markvörðinn en var svo óheppinn - boltinn fór í slána. Grátlegt. S-Kórea var með unnin leik í höndunum en með gríðarlegri baráttu náði Ísland að koma sér aftur inn í leikinn og gat jafnað metin í lokin.

07.20 Ísland - S-Kórea 21-22

Kóreumenn skjóta yfir og Ísland fær boltann. Guðmundur tekur leikhlé þegar 35 sekúndur eru eftir. Ef Ísland skorar fá Kóreumenn væntanlega síðustu sóknina í leiknum.

07.19 Ísland - S-Kórea 21-22

Óli Stef með sitt fyrsta mark og munurinn eitt mark. 50 sek eftir.

07.17 Ísland - S-Kórea 20-22

Guðjón Valur skorar úr hraðaupphlaupi en það eru um þrjár mínútur til leiksloka. Ísland verður að standa vaktina í vörninni og leika fullkominn sóknarleik til að fá jafntefli í þessum leik. Þetta verða erfiðar lokamínútur.

07.15 Ísland - S-Kórea 19-22

Fjórar og hálf eftir. Ísland missti boltann í sókn en sem betur fer varði Björgvin og Guðjón Valur skoraði úr hraðaupphlaupi. En þá skoraði Yoon sitt sjötta mark og Ísland missir svo boltann í næstu sókn auk þess sem Logi fær tveggja mínútna brottvísun. Úff.

07.10 Ísland - S-Kórea 18-20

Eftir langa íslenska sókn skoraði Alexander með laglegu gegnumbroti. Gríðarlega mikilvægt. Sjö og hálf mínúta eftir og S-Kórea með boltann.

07.06 Ísland - S-Kórea 16-19

Tvö íslensk mörk í röð og Ísland vinnur boltann í vörn. Þetta er allt galopið enn, sem betur fer. Ellefu mínútur eftir.

06.59 Ísland - S-Kórea 13-18

Nú er Yoon kominn í sóknina og hefur skorað tvö í röð. Nú gengur ekkert hjá íslenska liðinu nema Björgvin sem hefur verið að verja ágætlega. Sem betur fer. Íslenska sóknin er skelfileg þessa stundina.

06.54 Ísland - S-Kórea 11-15

Róbert hefur klúðrað tveimur dauðafærum í röð og Kóreumenn hafa gengið á lagið. Íslenski sóknarleikurinn þarf að hrökkva í gang.

06.51 Ísland - S-Kórea 11-13

S-Kórea kemst þremur mörkum yfir en Logi svara fyrir íslenska liðið með tveimur mörkum í röð.

06.47 Ísland - S-Kórea 9-11

Síðari hálfleikur byrjar eins og sá fyrri endaði. Íslenska sóknin nær ekki almennilegu skoti að marki og S-Kórea skorar úr víti.

06.35 Ísland - S-Kórea 9-10 hálfleikur

Kominn hálfleikur og ljóst að Íslendingar þurfa að stilla skotmiðið. Aðeins níu skot af 20 hafa ratað í markið. Markvörður þeirra hefur varið sex skot og hafa því fimm einfaldlega farið framhjá.

Það er í góðu lagi að fá tíu mörk á sig frá þessu liði í einum hálfleik en það þarf að bæta sóknarleikinn í síðari hálfleik. Vonandi að strákarnir nái að fara vel yfir málin í hálfleik.

Björgvin Páll hefur átt frábæran leik til þessa og varið tíu skot, þar af eitt víti. Frábær leikur hjá honum.

Mörk íslenska liðsins:

Logi Geirsson 3 (3)

Alexander Petersson 2 (5)

Ingimundur Ingimundarson 1 (1)

Arnór Atlason 1 (2)

Guðjón Valur Sigurðsson 1 (3)

Snorri Steinn Guðjónsson 1/1 (4/2)

Ólafur Stefánsson (1)

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 10/1 (21/3, 48%)

06.30 Ísland - S-Kórea 9-10

Ísland komst yfir eftir að Björgvin varði víti og Logi skoraði sitt þriðja mark í röð. En þá skora þeir tvö í röð og ná yfirhöndinni á ný. Þetta er semsagt frekar kaflaskiptur leikur. Guðmundur tók leikhlé þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

06.25 Ísland - S-Kórea 7-8

Logi jafnar úr hraðaupphlaupi en Ísland hefur þurft að taka mörg erfið sókn úr hefðbundnum sóknaraðgerðum sem hefur orðið til þess að skotnýting liðsins er mjög slæm. S-Kóreumenn náði svo aftur yfirhöndinni.

06.21 Ísland - S-Kórea 6-7

S-Kóreumenn eru að spila vörn mjög framarlega og hefur Ísland átt í eilitlum vandræðum með þá. Þeir hafa reynt að teygja á vörninni en það hefur ekki alltaf tekist. Það er líka erfitt að ná gegnumbroti þar sem S-Kóreumenn eru einfaldlega með mann á mann-kerfi.

06.15 Ísland - S-Kórea 5-5

Það er mikið að gerast í þessum leik. Leikmenn eru á tánum og er það vel. Vörning hefur verið að spila gríðarlega vel og hávörnin að taka marga bolta á móti smávöxnum leikmönnum S-Kóreu.

Snorri Steinn lét hiins vegar verja sitt fyrsta víti á þessum leikum og S-Kóreumenn hafa jafnað metin.

06.11 Ísland - S-Kórea 4-3

Þetta gengur ágætlega. Suður-Kóreumenn eru rosalega fljótir í öllum sínum aðgerðum og hafa gert vel í sóknarleiknum en íslenska vörnin er byrjuð að taka vel á þeim.

Síðustu þrjú mörk hafa komið eftir hraðaupphlaup - það fyrsta úr víti sem var dæmt í hraðaupphlaupi. Það er gríðarlega jákvætt teikn að raða inn mörkum úr hraðaupphlaupum.

06.06 Ísland - S-Kórea 1-3

Athyglisverð byrjun. Fimm mínútur liðnar og Ísland hefur ekki náð að skora. Varnarleikur S-Kóreu er mjög agressívur og þau skot sem Ísland hefur náð að marki hefur markvörður þeirra varin.

Það jákvæða er að íslenska vörnin hefur staðið sig vel og Björgvin Páll varið tvö skot í markinu. Einu mörk S-Kóreu hafa komið úr vítum.

En nú kom fyrsta íslenska markið. Alexander úr horninu eftir sex og hálfa mínútu. En S-Kóreumenn svara strax.

06.00 Ísland - S-Kórea 0-1

Leikurinn er hafinn. Björgvin Páll byrjar í markinu og sama varnaruppstilling og í gær. S-Kórea byrjar á því að fiska víti og komast 1-0 yfir.

05.55 Þýskaland - Egyptaland 25-23

Einum leik er lokið í B-riðli á Ólympíuleikunum í nótt þar sem Þjóðverjar lögðu Egypta, 25-23. Þeir eru því líka komnir með fjögur stig, rétt eins og íslenska liðið sem á vitanlega leik til góða.

Staðan í leiknum var jöfn í hálfleik, 14-14, og þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Þjóðverjar skoruðu svo síðustu tvö mörkin í leiknum.

Í A-riðli vann svo Pólland sigur á Brasilíu, 28-25. Síðasti leikur dagsins í B-riðli er viðureign Danmerkur og Rússlands sem hefst klukkan 11.00.

05.45 Velkomin til leiks!

Góðan dag lesendur góðir og velkomin á fætur! Klukkan sex hefst leikur Íslands og Suður-Kóreu og má búast við afar spennandi leik. Bæði lið hafa komið á óvart til þessa með því að ná góðum úrslitum.

Ísland hefur unnið Rússland og heimsmeistara Þýskalands til þessa eins og allir núlifandi Íslendingar ættu að vita en Suður-Kórea hefur einnig náð mjög góðum úrslitum.

Þeir byrjuðu á því að tapa fyrir Þýskalandi með fjögurra marka mun eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik. Svo gerðu þeir sér lítið fyrir og lögðu Evrópumeistara Dani, 31-30.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×