Körfubolti

Miami - LA Lakers í beinni í nótt

Kobe Bryant og Dwyane Wade eru tveir af allra bestu leikmönnum NBA deildarinnar
Kobe Bryant og Dwyane Wade eru tveir af allra bestu leikmönnum NBA deildarinnar NordicPhotos/GettyImages

Leikur Miami Heat og LA Lakers verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í nótt klukkan eitt. Hér mætast líklega tveir bestu skotbakverðir heimsins, þeir Dwyane Wade og Kobe Bryant.

Heimamenn í Miami hafa unnið 12 leiki og tapað 12 en liðið hefur reyndar tapað síðustu þremur leikjum sínum. Dwyane Wade hefur ekki náð sér á strik í þessum leikjum eftir að hafa farið á kostum vikurnar þar á undan.

Wade er stigahæsti leikmaður NBA deildarinnar með 28 stig að meðaltali í leik og ekki er langt síðan kappinn fór hamförum í leik í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þá skoraði hann 43 stig í sigri Miami á Phoenix þann 29. nóvember.

Lakers-liðið hefur verið á gríðarlegri siglingu og hefur unnið 21 leik en tapað aðeins þremur. Liðið mætir til Miami í nótt hafandi unnið fjóra leiki í röð.

Kobe Bryant er stigahæsti maður liðsins að venju en hann hefur reyndar "aðeins" skorað 25 stig að meðaltali í leik í vetur. Breiddin í Lakers-liðinu er enda mikil og enn meiri en á síðustu leiktíð þar sem liðið hefur nú endurheimt miðherjann Andrew Bynum úr meiðslum.

Spánverjinn Pau Gasol hjá Lakers er reyndar nokkuð tæpur fyrir leikinn í kvöld eftir að hafa verið veikur undanfarna daga, en ekki er ólíklegt að hann verði með.

Lamar Odom var líka búinn að vera veikur en hann mætti á síðustu æfingu og ætti því líka að vera klár í slaginn í kvöld gegn sínum gömlu félögum á suðurströnd.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×