Körfubolti

Hamilton tæpur fyrir leikinn í nótt

Richard Hamilton meiddist í síðasta leik og er aumur í skothendinni
Richard Hamilton meiddist í síðasta leik og er aumur í skothendinni NordcPhotos/GettyImages

Richard Hamilton, stigahæsti leikmaður Detroit Pistons í úrslitakeppninni, er tæpur fyrir mikilvægan sjötta leik liðsins gegn Boston í úrslitum Austurdeildarinnar í nótt.

Hamilton meiddist á olnboga undir lok fimmta leiksins í Boston í fyrrakvöld og sagði Flip Saunders þjálfari liðsins að Hamilton hefði ekki komið til greina ef sjötti leikur liðanna hefði farið fram strax í gærkvöld. Hamilton fór í myndtöku eftir leikinn og er óbrotinn, en talið er að hann hafi tognað.

"Þetta er auðvitað skothendin - gullhendin hans. Við verðum bara að bíða og vona hvort hann verður klár," sagði Saunders. Búist er við því að Rodney Stuckey verði jafnvel í byrjunarliði Detroit ef Hamilton verður ekki orðinn klár.

Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir Pistons, því leikstjórnandi liðsins Chauncey Billups getur heldur ekki beitt sér að fullu vegna meiðsla á læri.

Hamilton hefur skorað hátt í 22 stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni, en næsti maður er Chauncey Billups með rúm 15 stig að meðaltali í leik.

Sjötti leikur Detroit og Boston verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 00:30 í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×